149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:52]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og umræðuna um nýja stjórnarskrá. Það hefði kannski farið betur á því að við hefðum eytt síðustu 136 þingklukkustundum í umræðu um eitthvert stórt mál eins og stjórnarskrána (Gripið fram í: Heyr, heyr.) en þriðja orkupakkann.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, og hann kom kannski aðeins inn á það í síðara svari við andsvari, um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég hef almennt verið nokkuð hlynnt þeim en einmitt þannig að utan um þær sé ákveðinn rammi. Hv. þingmaður nefndi kjarnann þegar kemur að spurningum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þrátt fyrir að hafa ekki hlustað á allar ræðurnar sem hafa verið fluttar um þriðja orkupakkann en stóran hluta af þeim átta ég mig ekki enn á því hvað t.d. hv. þingmenn Miðflokksins eru að fara fram á.

Við gætum spurt þjóðina: Á að samþykkja eða synja þriðja orkupakkanum hér á Alþingi? Og hvað svo? Á þjóðin ekkert að vita meira? Hvað þýðir það ef við segjum nei? Á hann að fara aftur inn í EES-nefndina — og semja um hvað? Undanþágur gagnvart ACER sem við erum samt búin að skrifa inn í þingsályktunina (Forseti hringir.) að komi ekki til? Hvað er það sem við raunverulega viljum? Um hvað myndum við spyrja í þjóðaratkvæðagreiðslu um svona mál?