149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar málið hefur fengið þetta mikla umræðu og vinnu í þinginu og mikla umræðu í samfélaginu er alveg ljóst hvað gerist ef málinu verður hafnað. Ef kjósendur höfnuðu málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu myndi gerast nákvæmlega það sama og ef þingheimur greiddi atkvæði gegn málinu sjálfu. Og sömuleiðis ef þjóðaratkvæðagreiðslan leiddi af sér já-ið myndi það jafngilda því að meiri hluti þingmanna hefði greitt atkvæði með.

Það er eini munurinn, þ.e. hvaða einstaklingar segja já eða nei. Það er enginn munur á málsmeðferðinni að öðru leyti nema þá væntanlega að þetta verður hluti af löggjafarferlinu. Þá kæmi þjóðaratkvæðagreiðslan til eftir að Alþingi hefði samþykkt það, enda engin ástæða til að fara í það svo sem á því stigi nema Alþingi samþykki það.

Hins vegar er munurinn á t.d. Brexit og þessu sá að við vitum núna alveg hvað gerist. Það eru óvissuþættir í því en við vitum hverjir þeir eru. Þjóðaratkvæðagreiðslan um Brexit var haldin að því gefnu að breskir kjósendur myndu samþykkja málið, það var aldrei gert ráð fyrir nei-inu, (Forseti hringir.) að kjósendur myndu hafna aðild að Evrópusambandinu. Út úr því kemur allur flumbrugangurinn.

Það sem þeir hefðu átt að gera — ég verð að koma að því í seinna andsvari.