149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:54]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er einmitt það sem hv. þingmaður kom inn á: Hvað gerist ef við segjum nei við þriðja orkupakkanum? Svörin sem við höfum fengið í hv. utanríkismálanefnd og frá okkar helstu sérfræðingum eru: Það er óvissa. Við getum ekkert sagt um það fyrir víst. Við verðum þá að vita hvað við viljum næst. Viljum við semja okkur út úr IV. viðaukanum eða viljum við hreinlega komast út úr samningnum sem slíkum? Eða viljum við bara hætta þarna, vera bara með löggjöfina eins og hún er eftir fyrsta og annan orkupakkann og segja svo bara nei við næsta skrefi? Þeim spurningum hefur ekki verið svarað á þeim 138 klukkustundum sem málið hefur verið rætt og engan veginn hægt að sjá hver sé vilji þeirra sem á móti pakkanum standa hvað það varðar.

Mig langar að bæta við spurningarnar af því að hv. þingmaður kom inn á lögmætar áhyggjur almennings. Ég tek undir það. Þó er eitt mjög gott við þá umræðu sem átt hefur sér stað á síðustu misserum varðandi þriðja orkupakkann og það er hin mikla umræða um orkumál, orkuauðlindina og hvað þetta skiptir okkur miklu máli. Þar er auðvitað fullt af áhyggjum og fullt af spurningum sem við í þessum sal þurfum að svara.

Spurning mín er: Finnst hv. þingmanni (Forseti hringir.) siðferðilega boðlegt að þær áhyggjur sem almenningur hefur, og margoft hefur verið svarað af helstu fræðimönnum og í meðhöndlun þingsins, séu bornar hér upp trekk í trekk af hv. þingmönnum sem eiga að mínu viti að vita betur?