149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svar mitt er: Nei, mér finnst það ekki boðlegt. Ef mér endist tíminn á eftir fer ég kannski aðeins út í það. Ég ætla samt að reyna að halda mig við efnisatriði málsins eftir því sem mér er frekast unnt.

Hvað varðar þjóðaratkvæðagreiðsluna og hvað gerist er grundvallarmunur á því að það séu einhverjar óþekktar stærðir í því sem gerist næst versus það að vita ekki hvað gerist næst yfir höfuð. Við vitum alveg hvað gerist ef við höfnum hérna. 102. og 103. gr. EES-samningsins taka við. Það hefur aldrei verið gert áður þannig að það er ákveðin óvissuferð. Við vitum reyndar að við munum pirra Norðmenn, frændur okkar, mjög mikið með því vegna þess að það setur væntanlega alls konar áform þar í eitthvert uppnám. Þá vita þeir ekki hvaða reglur þeir eiga að búa sig undir. Þar verður til lagaleg óviss, óháð því hvaða reglur síðan kæmu til, þannig að við vitum að við bökum okkur óvild þar.

Væntanlega tæki EES-nefndin mið af þessum umræðum og semdi upp á nýtt, geri ég ráð fyrir, það yrði bara að fara eftir 102. og 103. gr. EES-samningsins, en það væru klárlega næstu skrefin, (Forseti hringir.) ólíkt því sem var í Brexit. Þar voru engin næstu skref. Það sem þeir hefðu átt að gera — nú lendi ég aftur í tímaþröng — var að leggja fram þingsályktunartillögu um að slíta sambandinu við Evrópusambandið, láta hana fá þinglega meðferð og síðan kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held að breska þjóðin hefði hafnað þeirri tillögu.