149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er grundvallarmunur á þessu máli og Brexit sem er sá að Brexit var einfaldlega skoðanakönnun sem var gerð af yfirvöldum án þess að fyrir lægi neitt þingmál til að taka við því. Ekkert umsagnarferli, engar nefndir. Ákvörðunin fékk ekki þinglega meðferð. Fyrir utan það að þetta snerist um að taka þá pósitífu ákvörðun að segja sig úr sambandinu, ekki sú að samþykkja eitthvert mál sem kom frá sambandinu eins og er hér. Hér er komið inn mál sem okkur býðst að samþykkja eða hafna samkvæmt öllum ferlum, öllum venjum og samkvæmt EES-samningnum. Það fær sína þinglegu meðferð og það fær mjög mikla umræðu og nefndarálit og fær umræðu í samfélaginu. Og síðan þegar við erum komin hingað í síðari umr. í lokin eru greidd atkvæði um málið út frá þeim staðreyndum sem þegar hafa komið fram.

Þetta var einfaldlega ekki tilfellið í Brexit. Það er ekki hægt að bera það saman af þessari ástæðu. Fyrir utan þær aðstæður þegar hlutirnir eru ráðgefandi (Forseti hringir.) og spurningin er einfaldlega: Vilt þú þetta eða vilt þú það ekki? Það veitir lélega leiðsögn til stjórnmálamanna og kerfisins alls um það hvernig eigi að bregðast við. (Forseti hringir.) Flumbrugangurinn í kringum Brexit einkennist af því að þrátt fyrir að þeir viti hvaða grein þeir eiga að beita hefur engin umræða átt sér stað um það hvað myndi gerast (Forseti hringir.) eða hvernig þeir (Forseti hringir.) myndu útfæra það, (Forseti hringir.) hversu lengi þeir væru án samnings o.s.frv.