149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:01]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Hættum að tala um Brexit. Það er mér að kenna, en hættum að tala um það, því að það kemur þessu máli nákvæmlega ekkert við.

Hv. þingmaður hefur sagt að þjóðaratkvæðagreiðslur verði að vera þannig að valkostirnir séu skýrir. Ég var að reyna að fá hann til að útskýra hverjir valkostirnir væru. Og ein af ástæðum þess að ég var að tengja það við ummæli hv. þingmanns um Brexit var sú að hann sagði að hér væru óvissuþættirnir alveg ljósir. Hverjir eru óvissuþættirnir, hv. þingmaður? Hver eru næstu skrefin? Hvar er óvissa um að hægt sé að taka næstu skref? Hvar er óvissa um hvaða skref tekur við af næsta skrefi o.s.frv.? Hv. þingmaður hlýtur að vera búinn að hugsa þetta ferli alveg til enda fyrst hann boðaði þjóðaratkvæðagreiðslu, tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um þessi mál, búinn að segja að það sé ekki hægt að halda þjóðaratkvæðagreiðslur nema valkostirnir séu algjörlega skýrir.