149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:03]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir hans nálgun, sem mér þykir náttúrlega áhugaverð og sér í lagi af því að ég hef alltaf talið Pírata vera einstaklega hliðholla beinu lýðræði og trausti á fólkinu í landinu og kjósendum. Ég get sagt að við eigum það líka sameiginlegt í Flokki fólksins, enda lögðum við fram breytingartillögu við þingsályktunartillögu í vor sem við fengum ekki að mæla fyrir og fannst í rauninni nóg sagt. Við treystum þjóðinni fullkomlega til að taka ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Flokkur fólksins mun koma með breytingartillögu við þingsályktunartillöguna á morgun sem við vorum líka búin að skrá inn á þingið í vor, þar sem fram kemur að í staðinn fyrir að það sé Alþingi sem taki ákvörðun um lagningu sæstrengs verði það þjóðin sem gerir það.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hann þjóðinni ekki treystandi til að taka þá ákvörðun?