149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svar mitt er: Jú. Ég tel þjóðinni fullkomlega treystandi til þess. Ég tel henni líka treystandi til að ákveða hvort hún vilji fá þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki. Þá þurfum við að finna einhvern feril. Það er búið að rökræða hann árum saman og ágætisútfærslu á því er að finna í frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár. Það er útfærslan sem ég aðhyllist, að ef 10% kjósenda vilja fá þjóðaratkvæðagreiðslu um mál skal ég persónulega, í mínu eigin nafni, leggja fram tillögu þess efnis og styðja hana með ráðum og dáð, þar á meðal þjóðaratkvæðagreiðslutillögu hv. þingmanns. Ein ástæðan fyrir því að ég styð hana ekki eins og er er sú að ég hef einfaldlega ekki orðið var við þetta ákall. Það hafa safnast 16.000 undirskriftir varðandi Orkuna okkar, sem eru samtök sem hafa unnið mjög ötult starf allt árið, en þeir ná 16.000, sem er ívið minna en 25.000, þannig að ég sé ekki að ákallið sé til staðar.

Verði þetta ákall til staðar aftur styð ég þjóðaratkvæðagreiðslu um það og hún skal vera bindandi. Ég held að ég ætli ekki einu sinni að (Forseti hringir.) styðja það eða stuðla að því að þingmenn ákveði sjálfir hvort þeir ætli að taka mark á því eða ekki. Þjóðin á bara að ákveða það sjálf.

Svar mitt er: Já, ég treysti þjóðinni og ég treysti henni til að ákveða sjálf hvað eigi heima í þjóðaratkvæðagreiðslu og hvað ekki. Ég treysti hins vegar stjórnmálamönnum alls ekki til þess.