149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:06]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni að það er víst ekki hægt miðað við löggjöfina okkar, eins og hún býður upp á í dag, að kalla eftir bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu nema sérstaklega sé farið með það hér. Það er í löggjöfinni um þessa þjóðaratkvæðagreiðslu að það sé ráðgefandi. En gætum við ekki verið sammála um að það væru í rauninni afskaplega skrýtin stjórnvöld sem myndu ekki hlusta á að 70% þjóðarinnar kölluðu eftir einhverju ákveðnu?

Ég er sammála hv. þingmanni og skal styðja breytingar á stjórnarskrá með ráðum og dáð, enda sitjum við saman í þeim starfshópi mér til mikillar ánægju. Ég er hjartanlega sammála.

En þegar við erum að tala um risamál, eins og ég tel þetta vera þegar við erum að tala um sameiginlegan innri markað á raforkumarkaði Evrópu og að við séum að fara með okkar orkumál inn á þann markað, sem mér finnst við hafa getað séð alveg þokkalega og ágætlega um fram til þessa, spyr ég: Er (Forseti hringir.) það ekki þjóðarinnar að taka ákvörðun um það sem varðar hana til allrar framtíðar og er risamál, a.m.k. í mínum huga?