149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef sagt áður er ég á móti því að stjórnmálamenn ákveði hvað fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og hvað ekki. Ástæðan er sú að þá verður það valdefling fyrir stjórnmálamenn en ekki fyrir þjóðina eða kjósendur. Þess vegna finnst mér að ákallið eigi að koma þaðan. Þess vegna vil ég fara eftir ferlinu sem er í nýrri stjórnarskrá. Mér finnst það mjög fínt ferli. Þar eru ýmsir varnaglar og slíkt til að gera þetta vel. Þetta eru engin geimflugsvísindi sem eru heldur kannski ekki jafn flókin og fólk heldur.

En hvað varðar bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu var hugmyndin og það sem við í Pírötum höfðum undirbúið okkur undir, ef flokkurinn hefði gefið okkur þau skilaboð að við ættum að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta, þá var lausnin sem við myndum velja sú að binda þetta í gildistökuákvæði frumvarpanna og þingsályktunartillagnanna, orkupakkamálanna, þannig að þau myndu einfaldlega ekki taka gildi nema við samþykktum þjóðaratkvæðagreiðslu. Og í breytingartillögunni, sem ég skal fara yfir með hv. þingmanni á eftir ef hún hefur áhuga á, eru tilgreind lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna þrátt (Forseti hringir.) fyrir 2. málslið 1. gr. þeirra laga þar sem tilkynnt er að það skuli vera ráðgefandi. Ég held að þessi leið sé lagalega fær en skal glaður ræða áfram hvernig við getum komið á bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.