149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég vil aðeins koma inn á það sem fram hefur komið. Þar sem hv. þingmaður situr í utanríkismálanefnd gæti hann væntanlega haft skoðun á því. Telur hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir að EES-samningurinn sé í hættu verði orkupakki þrjú ekki innleiddur í íslenskan rétt og íslensk lög?

Í framhaldi af því væri kannski fróðlegt að fá svar við því hvort Evrópusambandið hafi komið þeim skilaboðum á framfæri til íslenskra stjórnvalda að þau hyggist segja upp EES-samningnum eða breyta honum verði orkupakkinn ekki samþykktur.

Í framhaldi af því — og ég bíð náttúrlega eftir svarinu frá hv. þingmanni — veltir maður fyrir sér hvernig það geti í raun og veru verið andstætt samningnum að fara eftir honum, þ.e. sú leið sem við höfum, að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar til að fá þá undanþágu frá þessari tilskipun.

Mig langar aðeins að koma líka inn á fyrirvarana við hv. þingmann, hina lagalegu fyrirvara sem stjórnvöld hyggjast innleiða hér, og spyrja hvort þeir haldi gildi sínu, hvort hv. þingmaður telji að þeir haldi fyrir evrópskum dómstólum. Og ef hún telur svo vera, hvers vegna eiga þeir þá að halda?