149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið sem er athyglisvert að því leytinu til að það kemur fram hjá hv. þingmanni að ekki hafi komið nein skilaboð frá Evrópusambandinu um að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sé í hættu verði innleiðingin ekki gerð á Alþingi.

Þetta er mikilvægt innlegg inn í þessa umræðu. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma því á framfæri. Það eru bara vangaveltur hv. þingmanns — og væntanlega þá stjórnarmeirihlutans — um að hugsanlega gæti þetta verið áhyggjuefni og valdið hættu. Þetta er málflutningur sem einkennir svolítið stjórnarliða í þessu, hugsanlega og kannski.

En við höfum þá lögbundnu leið sem við öll þekkjum, að fara fyrir nefndina. Það er ekkert sem mælir gegn því og eðlilegt að fara þá leið í ljósi þeirrar miklu andstöðu sem ríkir meðal þjóðarinnar gagnvart þessu máli og andstöðu innan stjórnarflokkanna, ekki síst Framsóknarflokksins. Það er mikil andstaða við þetta mál innan Framsóknarflokksins, svo því sé haldið til haga.

Það væri fróðlegt að fá það fram hjá hv. þingmanni hvort hún þekki það hvort undanþágur hafi valdið einhverjum vandræðum. Ég veit ekki til þess. Þó svo að þetta hafi ekki verið gert í 25 ára sögu samningsins, eins og hv. þingmaður segir, er ekkert sem kemur í veg fyrir að það verði gert vegna þess að þetta er hluti af samningnum. Það verður að halda því til haga. Það er hluti af samningnum að geta farið þá lögbundnu leið. Það væri ágætt að hv. þingmaður kæmi aðeins nánar inn á þetta.

Að lokum örlítið að öðru en þó mjög tengt þessu máli. Fyrir skömmu kom út skýrsla Orkunnar okkar um áhrif inngöngu Íslands í orkusamband Evrópusambandsins, mjög áhugaverð skýrsla, (Forseti hringir.) skrifuð af einum þremur prófessorum og fleirum við Háskóla Íslands. Hér er kafli á bls. 41 (Forseti hringir.) um efnahagsleg áhrif orkupakka þrjú, mjög athyglisverður. Hver er skoðun hv. þingmanns á skýrslunni?