149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:26]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ræðum undanþágurnar, ræðum frávísun og áhrif á EES-samninginn og vangaveltur stjórnarþingmanna og annarra þingmanna utan þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins.

Þegar málið var rætt í utanríkismálanefnd ræddum við akkúrat undanþágurnar. Ég ítreka fyrra svar mitt til hv. þingmanns varðandi það af hverju frekari undanþágur voru ekki fengnar á meðan málið var í sameiginlegu EES-nefndinni. Þá var hér við völd hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi utanríkisráðherra, og samflokksmaður hv. þm. Birgis Þórarinssonar, þáverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Þeir menn höfðu töluvert mikil völd á þeim tíma og hefðu getað bætt beitt sér fyrir frekari undanþágum en fengust í málinu. Ég hvet hv. þingmann til að ræða við samflokksmenn sína um það.

Nefndin spurði þá sem eru andstæðingar þessa máls: Hvaða undanþágur ættum við þá að biðja um? Ef við myndum vísa málinu til baka, hvað værum við þá að biðja um nákvæmlega umfram það sem höfum þegar fengið? Það var fátt um svör. Við fengum ekki svar við þeirri spurningu og spurðum þó nokkra aðila.

Það sem þetta mál snýst um er að um er að ræða frekari neytendavernd á orkumarkaði. Þetta snýst um að Orkustofnun okkar Íslendinga fær auknar eftirlitsheimildir til að tryggja neytendavernd. Um það snýst þetta mál. Það er enginn lögfræðilegur (Forseti hringir.) vafi á því að málið stenst stjórnarskrá, það er annað mjög mikilvægt atriði, og það brýtur ekki fjórfrelsið.