149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:36]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér er bara létt að vita að hér í þingsal séu svona hugaðir og óhræddir og sterkir menn (Gripið fram í.) sem þora að takast á við erfiða hluti, þora að takast á við óvissuna. (Forseti hringir.) Mér er bara létt. Gott að vita. Ég þakka líka hv. þingmanni fyrir leiðsögnina, fyrir að útskýra fyrir mér hvernig andsvör virka. (Gripið fram í.) Ég þakka kærlega fyrir það líka. Gott að fá leiðsögn frá reyndum manni.

Enn og aftur: Ég ætla ekkert að hætta þarna. 102. gr. er skýr og ég útskýrði það, ef þingmaðurinn hefur hlustað vandlega á mitt mál hér áðan og í vor, mjög vandlega á hverju samvinna okkar innan EFTA og EES byggist. Þar gilda ákveðnar reglur. Við höfum leiðir til þess að óska eftir undanþágum og aðlögunum að því sem við viljum og þurfum og teljum okkur þurfa. Það er stund og staður fyrir slíka vinnu. Sú vinna fór fram í ráðherratíð hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, núverandi samflokksmanns þingmannsins. Hann ætti frekar að spyrja samflokksmann sinn hvers vegna ekki var beðið um frekari undanþágur á þeim tíma sem málið var til umfjöllunar.

Ég spyr aftur hv. þingmann: Hvaða undanþágur ættum við að biðja um umfram þær sem við höfum þegar fengið ef við ákveðum að senda málið til baka? Maður gerir ekki svona nema að hafa fyrir því gild rök og skýrar spurningar um hvað við ætlum að fá út úr slíkri frávísun. Hagsmunum Íslendinga er ekki betur borgið með því að leggja upp í einhverja óvissuferð (Forseti hringir.) með enga spurningu meðferðis, engar kröfur, bara eitthvað. Er það skynsamlegt?