149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Satt best að segja hélt ég í vor að þegar Miðflokkurinn krafðist þess að fresta málinu um þriðja orkupakkann kæmu fram einhverjar nýjar upplýsingar, einhverjar staðreyndir, að frestunin væri annað og meira en úthugsaður pólitískur leikur og hugsanlega líka til að nota ferðina í leiðinni að klekkja á ríkisstjórninni. Mér finnst þetta gamaldags og mér finnst þetta er vont. Þetta er vont fyrir lýðræðið og vont fyrir fullveldið okkar þegar vinnubrögðin eru með þessum hætti á elsta þingi í heimi.

Höfum nokkra hluti á hreinu. Í orkupakkanum er ekkert um sæstreng. Það er allt í okkar höndum. Í orkupakkanum er ekki verið að framselja vald til erlendra stofnana heldur er Orkustofnun miklu heldur styrkt og hennar heimildir líka. Í orkupakka þrjú er ekki verið að skylda íslenska ríkið á nokkurn hátt til að virkja. Það er ekki verið að skylda hið opinbera til að einkavæða raforkustofnanir. Það er ekki verið að fara gegn stjórnarskránni. Það er ekki verið að innleiða ákvæði sem leiða til hærra orkuverðs.

Ekkert af þessu er í orkupakka þrjú, en samt vilja andstæðingar orkupakkans fá undanþágu frá orkupakkanum, undanþágu frá því sem er ekki í honum. Þetta gengur auðvitað ekki upp. Það sjá allir heilvita menn og konur.

Í hverju felst þá andstaða þeirra sem eru á móti orkupakkanum? Andstaða þeirra, Miðflokksins og þeirra sem honum fylgja, felst í því að það verður ekki knúið fram rétt verð fyrir orkuna úr sameiginlegum auðlindum landsmanna. Andstaðan felst í því að það á ekki raunverulega að tryggja almennilega stjórnun og yfirráð þjóðarinnar yfir auðlindum og setja eðlilega kröfu til stjórnvalda til að svo verði gert.

Andstaða þeirra sem eru á móti orkupakkanum er að þeir vilja ekki gegnsæi. Það kemur svo sem ekki á óvart. Þeir vilja ekki í andstöðu sinni að spurt verði eðlilegra spurninga um það hvort rétt sé að stórfyrirtæki og stórnotendur geti nokkuð átölulaust fengið tímabundna samninga til allt að 65 ára. Þetta á að ganga allt saman snurðulaust. Það má ekki spyrja þessara spurninga. Andstaðan er við gegnsæið og upplýsingar.

Andstaða þeirra felst líka í því að þeir vilja ekki auka neytendavernd. Þeir vilja ekki efla og styðja við samkeppni. Í þessu felst andstaðan við þriðja orkupakkann. Andstaðan felur líka í sér að vilja ekki að nýtingu orkunnar í gegnum betri orkunýtni verði fylgt eftir. Andstaða Miðflokksins og þeirra sem honum fylgja felur líka í sér að vilja ekki þvinga raforkufyrirtækin til að opna sig og birta upplýsingar um raforkuverð. En ekki síst felur andstaða Miðflokksins og íhaldsarma stjórnarflokkanna og afla í samfélaginu í sér að ekki verði tekið af ábyrgð í gegnum samstöðu þjóða með markvissum hætti á loftslags- og umhverfismálum. Við Íslendingar sitjum hér öll, við sitjum hér á þinginu sem Íslendingar, og Norðurlandabúar erum við líka. Við erum líka Evrópubúar og jarðarbúar svo það fari ekki milli mála.

Hvers vegna nefni ég það? Vegna þess að við búum á eyju deilum við einum lofthjúp með öllu öðru fólki, öllum öðrum sem búa á þessari jörð. Það er miklu stærra verkefni en við ráðum við ein og sér, stærra en nokkur þjóð ræður við, þ.e. að sporna gegn þeim loftslagsbreytingum sem við höfum komið af stað. Þar liggur kjarninn í orkustefnu Evrópusambandsins sem virðist að okkar mati ekki hafa fengið nægilega mikið rými á þessum vettvangi.

En auðvitað skiptir þessi loftslagsstefna, þessi orkustefna, ekki máli í hugum þeirra íhaldsafla sem eru á móti orkupakka þrjú, enda eru þau öfl að mínu mati í stanslausri afneitun gagnvart þeirri ógn sem steðjar að loftslagsmálum, hamfarahlýnuninni.

Við skulum aðeins skoða fyrstu ákvæði reglugerðar orkupakkans. Þar stendur m.a. að ákvarðanir skuli vera í samræmi við umhverfið og samkeppni. Hvað samkeppnina varðar kom skýrt fram á öllum þessum nefndarfundum, bæði utanríkismálanefndar og atvinnuveganefndar, að trú andstæðinga orkupakka þrjú á samkeppni er ekki mikil. Gegnsæi er heldur ekki efst á þeirra blaði. Þau vilja frekar, eins og kom fram á fundum nefndarinnar, að gamli tíminn sé notaður við að ákvarða raforkuverð í staðinn fyrir að orkustefna mótist af því að opinber orkufyrirtæki verði rekin með arðsemissjónarmiðum og hagnaði og arði skilað í ríkissjóð í allra þágu. En gamli tíminn á frekar að ráða þarna.

Leiðarstef orkupakka þrjú er nefnilega að gera Evrópubúum kleift að uppfylla loftslagsmarkmiðin sem við höfum sjálf sett okkur. Einn stærsti mengunarvaldur Evrópu og heimsins er orkunotkun í ýmsum formum, jafnvel þegar orkan er framleidd með umhverfisvænum hætti úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Með því að bæta orkunýtni, setja notkuninni skorður og auka skilvirkni getum við dregið úr losun verulega og varanlega.

Líkt og margoft hefur verið bent á er hugmyndafræði Evrópusambandsins sem endurspeglast í þriðja orkupakkanum trúin á frjálsa og sterka samkeppni sem tryggir öllum sömu réttindi og skyldur með hagsmuni almennings og neytenda í forgrunni. Og hér liggja nákvæmlega gríðarlega miklir hagsmunir almennings og neytenda, að almannahagsmunir verði nefnilega teknir fram fyrir sérhagsmuni.

Í réttarbótum þriðja orkupakkans, bæði þeim sem snúa að aukinni neytendavernd og bættri orkunýtingu, er einmitt það fólgið, að orkupakki þrjú taki skilyrðislaust mið af nútímakröfum sem búa í haginn fyrir framtíðina, fyrir alla, ekki bara suma.

En hér skiptast líka liðin. Hér birtist gjáin á milli þeirra sem horfa fram á veginn og vilja taka metnaðarfull skref í þágu almennings og komandi kynslóða og þeirra sem vilja ríghalda í forna tíð, hugmyndina um afskipta eylandið sem hafnar nánu samstarfi við önnur ríki, sama hvað það mun kosta okkur. Við í Viðreisn höfum hins vegar tekið ákvörðun og tekið afstöðu með framtíðinni, með komandi kynslóðum og jörðinni. Við höfum sýnt það í verki og sett fram ekki alveg alltaf vinsælar hugmyndir. Við boðuðum m.a. hækkun kolefnisgjalda sem sitjandi ríkisstjórn dró reyndar úr. Með því að styðja við áframhaldandi þátttöku okkar í Evrópusamstarfi sem hefur lagt grunninn að því að vera leiðandi í baráttu gegn loftslagsvánni undanfarna áratugi erum við að taka mikilvæg skref með því að takast á við framtíðina. En þeir sem eru á móti orkupakkanum eru einmitt að ýta þessum mikilvægu viðmiðum til hliðar. Og það er ekkert óeðlilegt þegar Miðflokksmenn og fylgitungl þeirra vilja frekar halla sér loftslagsstefnu Trumps og halda í alvöru að Íslandi og víðtækum hagsmunum landsins okkar sé betur borgið í tvíhliða samningum sem oft og tíðum verða bara einhliða af hálfu stórþjóða í stað þess að vinna með öðrum þjóðum í víðtæku alþjóðasamstarfi.

Í krafti fullveldis okkar höfum við tök á að taka þátt í alþjóðasamstarfi og við höfum gert það í gegnum farsælt samstarf vestrænna þjóða, í gegnum varnarsamstarf við EFTA og síðan með þátttöku okkar á innri markaði Evrópusambandsins. Þetta gerum við allt í krafti fullveldisins. Það tækifæri höfum við. Við höfum ekki bara tök á því, heldur ber okkur siðferðisleg skylda til þess gagnvart þeim sem munu erfa landið að hafa gert allt sem í okkar valdi stendur til að sporna við þeirri umhverfisvá sem yfir okkur vofir. Það skaðar síðan ekki að með sama samstarfi í gegnum EES-samstarfið hefur einnig tækifærum okkar Íslendinga fjölgað, hvort sem við tölum um nám eða störf, hvað þá viðskipti. Hagur okkar allra í gegnum alþjóðasamstarf eins og innri markað Evrópu hefur batnað verulega.

Ég verð að segja að það er margt sem manni hefur mislíkað í þessari umræðu. Verst þykir mér þó þegar umræðan hefur verið tekin t.d. á þann stall mjög markvisst að ólík mál eru spyrt saman, t.d. að orkupakkinn og sæstrengur séu einn og sami hlutur, sama ákvörðunin. Eins og margoft hefur verið bent á er það ekki.

Við getum heldur ekki litið fram hjá stöðunni sem Evrópusambandið og EFTA hafa tekið með smáríkjum. Þetta skiptir okkur Íslendinga miklu máli. Þetta er hluti af því að með því að grafa undan stoðum EES-samningsins erum við að grafa undan stoðum okkar, viðskiptum og samskiptum við stórþjóðir en líka stórfyrirtæki. Evrópusambandið og EFTA hafa í krafti stærðar sinnar haft tök á því að fara m.a. gegn valdamiklum stórfyrirtækjum sem oft og tíðum hafa gert sér leik að því að fara inn í efnahag ríkja og hafa tilhneigingu til þess að sniðganga almennar samfélagslegar reglur sem sjálfstæð ríki og fullvalda hafa sett sér. Það er hægt að nefna mörg dæmi þess að við Íslendingar sem smáþjóð erum sterkari í alþjóðasamstarfi margra ríkja en að fara í tvíhliða samband.

Síðan er settur af stað markviss áróður sem enginn veit hvað er í gegnum Orkuna okkar og aðra aðila sem enginn veit hvernig er fjármagnaður.

Umfjöllun um þriðja orkupakkann er að mínu mati viðvörun. Hún er sterk viðvörun. Allt þetta mengi um umræðuna um þriðja orkupakkann fyrir okkur, þau pólitísku öfl sem standa fyrir hugsjónir og berjast fyrir hugsjónir fyrir frelsinu, jafnréttinu, fjölbreytni og alþjóðasamstarfi — við setjum þau í forgang. Þess vegna verðum við að vera á varðbergi (Forseti hringir.) þannig að gamlar hugmyndir í nýjum klæðnaði birtist ekki allt í einu skyndilega einn daginn (Forseti hringir.) við ríkisstjórnarborðið og við höfum ekki gert nægilega mikið í þeim efnum að berjast gegn slíku. Þess vegna verðum við að vera á varðbergi (Forseti hringir.) Við þurfum að hafa hátt, herra forseti, (Forseti hringir.) til að tala gegn staðleysum, tala gegn þeim sem berjast gegn frelsinu í (Forseti hringir.) landinu fyrir alla þjóðina.

(Forseti (ÞorS): Forseti tekur undir með hv. þingmönnum að þingmenn þurfa að hafa hátt en þeir þurfa að gera það innan tímamarka.)