149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:55]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég sat marga fundi, m.a. í utanríkismálanefnd þar sem kom sérfræðingur á sviði orkumála sem hefur skrifað ritgerðir um efnið, útskrifast sem sérfræðingur á sviði orkuréttar, lögfræðingur, Hilmar Gunnlaugsson. Hann bendir á að innleiðingin á orkupakka eitt og tvö og núna þrjú hafi ekkert með raforkuverð að gera. Hækkun á raforkuverði getur verið m.a. vegna orkuskorts eða annarra þátta. Menn skulu einfaldlega bera saman epli og epli, ekki alltaf epli og appelsínur. En það hentar þeim tilgangi hjá Miðflokknum að snúa alltaf út úr í þessu. Við skulum hafa það á hreinu að síðan 2002 hefur verið heimild til þess að lækka húshitunarkostnað og það hafa verið niðurgreiðslur í þá veru. Ekki koma með eitthvað annað. Ekki koma með enn eitt bullið hingað upp í ræðustól. (Gripið fram í.) Þetta er ekkert annað en bull sem er sett fram til þess að reyna að draga úr því hvað staðreyndirnar bera einfaldlega með sér. Þetta kom margoft fram á fundum nefndarinnar um málið. Við skulum hafa staðreyndir á (Forseti hringir.) hreinu. Mér finnst vont ef þetta er enn þá röksemdafærslan. (Forseti hringir.) Miðflokksmenn hafa ekki lært neitt í sumar, (Forseti hringir.) ekki komið með neitt nýtt, heldur halda áfram með að setja fram staðleysur fyrir þing og þjóð. Þetta er ekki boðlegt.