149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:57]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún kom náttúrlega í engu á óvart. Það er nokkuð ljóst hver stefna Viðreisnar er í Evrópumálum og þar af leiðandi kemur þetta ekki á óvart. Ég ætlaði reyndar ekki að koma upp í andsvar við hv. þingmann. Ég virði skoðanir annarra og óska þess að sama sé gert hvað lýtur að mér sem er alfarið á móti innleiðingu þriðja orkupakkans eins og Flokkur fólksins í heild sinni, við erum nú alveg tvö. Staðreyndin er sú að ég kem hérna upp því mér þykir ofsalega óþægilegt að hlusta á það hugsanlega undir rós að ég sé eitthvert fylgitungl Miðflokksins af því þeir eru á öndverðum meiði við hv. þingmann og meiri hluta þingsins — það kemur í ljós á mánudaginn — og að manni sé nákvæmlega sama um þá loftslagsvá sem hér er yfir og allt um kring. Það er alrangt. Það hvergi á neinum einasta tímapunkti sem Flokkur fólksins er ekki skelfingu lostinn yfir þeirri loftslagsvá og þeirri ógn sem stafar að jörðinni núna. Það er bara út af því sem ég kem upp. Flokkur fólksins er ekkert fylgitungl Miðflokksins hvað þetta varðar að einu eða neinu leyti þó að við ætlum að greiða atkvæði gegn orkupakka þrjú.