149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:58]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er hægt að taka undir með hv. þingmanni, hún verður seint talin til fylgitungla Miðflokksins. Ég vil hins vegar draga fram, og gerði það áðan, að í vor og upphafi sumars þá var öllum ræðum Miðflokksins ekkert rætt um umhverfismál, sem er einn stærsti parturinn af því að fara í innleiðingu á orkupakka þrjú og er grunnurinn í orkupakka eitt og tvö.

Og hvernig verður síðan framhaldið, hv. þingmaður, sem er formaður Flokks fólksins? Hvernig er næsti orkupakki sem fyrst og fremst snýst um hreina orku, er kallaður hreinorkupakkinn? Þar eru fyrst og fremst ákvæði til að vernda hverja? Til að vernda tekjulitla hópa. Fókusinn er sérstaklega á tekjulitla hópa og neytendur. Það eru ákvæði um notkun snjallmæla sem snerta ekki síst almenna neytendur og fjölskyldur. Tilskipunin skerpir á ábyrgð flutningsaðila og dreifiveitna, allt í þágu fjölskyldna og ekki síst með því að einblína á þá sem minnstar tekjur hafa í hverju landi fyrir sig. Þetta er eitthvað sem ég hefði talið umhugsunarefni fyrir hv. þingmann og Flokk fólksins að fylkja sér um. Ég virði engu að síður skoðun hennar í málinu og ætla ekki að líkja aðferðafræði og nálgun Flokks fólksins við Miðflokkinn í því.