149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:06]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka það svar. Við erum öll sammála um að við viljum heldur ekki sæstreng. Þegar kemur svo að því að fara að spyrja út í þá hryllingsmynd sem dregin er upp af framferði í þessu tilviki Evrópusambandsins í orkumálum þar sem það er að þvinga fram alls konar orkuöflun og tengingar, þá eru dregin fram Frakkland og Belgía. Í Frakklandi er tekist á um það hvernig staðið er að veitingu tímabundinna nýtingarleyfa fyrir vatnsafl. Hvað hefur það með einkavæðingu ríkisfyrirtækja að gera? Í Belgíu eins og ég reyndi að tala um hér áðan úr pontu byggir ESB-málið m.a. á því að Belgía hafi ekki styrkt valdheimildir belgíska raforkukerfisins nægjanlega. Nú langar mig að fá skoðun manneskju, hv. þingmanns sem hefur svipaðar áherslur og ég í þessum efnum, a.m.k. hvað þriðja orkupakkann varðar, hvort hún sjái nokkra hliðstæðu í þessum tveimur málum, Belgíu og Frakklands, við það sem við erum hér að ræða um, þriðja orkupakkann á Íslandi.