149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:20]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Af hverju undirgöngumst við sameiginlegan innri markað Evrópusambandsins í orkumálum? Því að spurt er. En hvað er í honum? Þetta lítur alveg skelfilega út þegar þetta er sagt svona og þetta er meira að segja kallað orkusamband Evrópu, eitthvert svona þvaður.

Eins og ég lít á þessi markmið eru þau þannig að þetta er frjálst samstarf um orkuöflun innan ESB. Það er enginn sem þvingar land til að framleiða svo og svo mörg megavött af einhverju. Það er heldur enginn sem þvingar land til þess að selja svo og svo mikið af olíu, gasi eða kolum, hv. þingmaður. Það er bara þannig. Þess utan eru líka samningar um frjálsar tengingar á milli landa. Það er enginn sem neyðir tengingu upp á annað land, án tillits til þess hvað í hana fari eða hvernig því yrði háttað, hvort það er sæstrengur, loftlína eða jarðstrengur.

Þessi mynd stemmir ekki. Síðan veit hv. þingmaður það fullvel að eitt meginyfirmarkmið alls þessa er græn orka í Evrópu. Þegar við undirgöngumst þetta er það einfaldlega þannig að við ráðum okkar hlut algjörlega. Það er svo samkvæmt EES-samningnum. Þannig að þetta er rangt. (IngS: Hvað er rangt?) Það er rangt að við séum að undirgangast eitthvað sem neyðir okkur til að taka við eða framleiða rafmagn — því að það er innihaldið í þessu. Ef einhvern tíma yrði sæstrengur hér af einhverjum orsökum, þá réðum við auðvitað hvað hann flytti, hvað væri framleitt, hvenær o.s.frv. Ef við stæðum ekki við einhverja samninga kæmi vissulega til eftirlit ESA eða ACER eða hvað það nú kynni að vera þá. Þannig að þessi mynd, hryllingsmynd sem verið er að draga upp, og hræðsluáróður, er allt mjög skaðlegt.