149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:23]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það væri fróðlegt að vita hverjar þessar undanþágur ættu að vera.

Ég var að útskýra fyrir hv. þingmanni hver þessi sameiginlega orkustefna er í raun og veru. Það er bara allt önnur mynd en hv. þingmaður er að reyna að gefa og um það snýst þessi deila. Sæstrengur, ekki sæstrengur? Það er algerlega á okkar forræði og skaðabótaskyldur með tilvísun í frjálst flæði vöru er misskilningurinn sem hv. þingmaður er haldinn og byggir allt sitt á, að frjálst flæði vöru byggi á þess konar þvingunum að verið sé að þvinga ríki til að framleiða ákveðna vöru, ákveðið magn og selja hana úr landi án tillits til þess hvað það ríki telur sig geta.

Hvað með náttúruverndina? Eigum við að upphefja allar okkar kröfur um náttúruvernd? Eigum við að upphefja yfirráðin yfir landhelginni og línulögnum þar? Þetta er fráleitt.

En mig langar að benda á eitt eða tvennt. Verið er að ræða um fjórða og jafnvel fimmta og sjötta orkupakkann. Það er verið að kasta þessu á loft. Hvað með innihaldið? Ef það er rétt að fjórði orkupakkinn fjalli fyrst og fremst um umhverfismál, í raun og veru græna orku, gæti vel verið að við gætum þá samþykkt hann þegar búið er að fara höndum um hann í sameiginlegu nefndinni.

Ég vil svo benda hv. þingmanni á að losun frá kísilveri, svo og svo mörg þúsund tonn af koltvíoxíði, er vegna þess að þetta er eina framleiðsluaðferðin sem til er í heiminum til þess að framleiða kísil, nánast hreinan kísil, sem er svo hreinsaður fullkomlega. Og hvað er gert við hann? Það eru búnar til sólarsellur.

Að kasta þessu upp hér og þeim orðum um þriðja og fjórða skelfilega orkupakkann er kennslubókardæmi í popúlisma.