149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:28]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að ég myndi ekki kæra mig um það að vakna kl. tvö á næturnar til að þvo þvottinn minn, enda held ég að enginn sé að tala um það, hvergi. Ég veit eiginlega ekki hvernig sú saga kemst á loft. Mig langar samt að byrja á því, virðulegur forseti, að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ekki síst kannski það að mér þykir hv. þingmaður hafa verið málefnalegur í sínum málflutningi og hefur mætt á fundi utanríkismálanefndar þar sem við sitjum báðar og setið einmitt þar undir spurningum og svörum. Við virðumst reyndar ekki hafa túlkað svörin með alveg sama hætti og erum ósammála um grundvallaratriði. Þess vegna finnst mér t.d. mjög mikilvægt, vegna þess að hv. þingmaður kom inn á að það er ekki hægt að hamla flæði vöru, að það var líka skýrt tekið fram að Evrópusambandið gæti aldrei skikkað okkur til að leggja þjóðvegi, byggja brýr eða þá leggja sæstreng. Það var alveg skýrt í nákvæmlega þessari umræðu.

Ef sæstrengur væri aftur á móti til staðar gætum við ekki valið úr hverjir fengju að flytja um hann því að það væri eins og hver annar þjóðvegur og þá yrðu allir að hafa sama rétt. En það er enginn sem getur skikkað okkur í nákvæmlega þetta.

Hv. þingmaður hefur verið með breytingartillögu og óskað eftir því að þetta færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Mig langar að spyrja hv. þingmann því að ég næ því ekki enn þá alveg: Hvaða lausnir sér hv. þingmaður fyrir sér? Er það þannig að hv. þingmaður vilji ganga út úr EES-samningnum? Vill hv. þingmaður segja upp IV. viðauka EES-samningsins og ná þannig nýjum samningi? Eða er það þannig að hv. þingmaður vill bara segja stopp núna við þriðja orkupakkanum og sætta okkur við það sem á undan er komið? Er það sú staðhæfing sem haldið hefur verið fram að við viljum alls ekki að orka sé vara?

Þá velti ég fyrir mér: Hvaða lausnir sér hv. þingmaður á þessu? Hvert myndi hv. þingmaður vilja fara ef hún ein réði í þessum efnum?