149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:30]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið, virðulegi forseti. Afsakið að ég skyldi gleyma að byrja á því. Ef ég réði ein myndi ég náttúrlega segja bara stopp undir eins og segja: Mér þykir miður að þetta sé komið þangað sem það er komið. Það er mun erfiðara að ætla að vinda ofan af því, enda erum við búin að gera ráðstafanir í okkar samfélagi sem hlutust af innleiðingu á fyrri orkupökkum, samanber Landsnet.

Það er athyglinnar virði að ætla að bera það saman, frjálst flæði vöru, sem er ein meginstoðin í fjórfrelsinu, við þjóðvegi landsins eða flugvelli eða hvaðeina annað. En við erum hér með orkufyrirtæki, frjáls orkufyrirtæki, einkarekin fyrirtæki á markaði. Þegar maður hlustar á sérfræðinga utanríkisráðuneytisins segja á sama tíma að við getum ekki hamlað frjálsu flæði vöru inn á markað, hvernig getum við þá að hamlað þeim á sama tíma ef þeir eru komnir með fjárfesta og allt hvaðeina, er það öðruvísi? Auðvitað getur íslenska ríkið það. Auðvitað erum við fullvalda og ég sagði það strax. Við ráðum okkar ráðum sjálf. En um leið erum við hugsanlega að baka okkur skaðabótaskyldu með því að hamla. Þó að kjöt og orka sé ekki það sama þá settum við hömlur engu að síður. Við getum meira að segja litið á risaskaðabótamál sem varð á sínum tíma þegar við hömluðum Samherja, hinn frægi karfadómur þegar við þurftum að greiða Samherja mjög mikla peninga því við hömluðum þeim að koma vöru sinni á markað.

Á meðan við skilgreinum orku sem vöru, eigum við þá að segja, hv. þingmaður, að þetta sé vara sérstaks eðlis eða er þetta bara almenn vara?

(Forseti hringir.) Ég ætla að ramma svar mitt inn: Ég myndi segja stopp á stundinni og láta reyna á það fyrir sameiginlegu EES-nefndinni hvernig þeir líta á okkar landfræðilegu (Forseti hringir.) stöðu og okkar sérstöðu hvað orkuna varðar.