149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:32]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er nákvæmlega þetta sem hún kom inn á í lokin, að segja stopp núna og sjá hvað sameiginlega EES-nefndin segir. Við höfum yfirlýsingar um það frá ráðherrum í Evrópusambandinu. Við höfum bókanir í sameiginlegu EES-nefndinni. Það er öllum ljóst að við erum eyja og við erum ekki tengd meginlandinu. Það er líka öllum ljóst, af því að þingmaðurinn talaði um skaðabótamál, að ef einhver ætti að reka slíkt mál þyrftu að vera væntingar um eitthvað annað. Af þeirri umræðu sem skapast hefur hér, af þeim fyrirvörum sem settir eru í þingsályktunartillöguna sem samþykkt verður hér á mánudaginn, af allri þeirri umræðu og yfirlýsingum getur enginn sýnt fram á það að hann geti haft væntingar um að fá að tengja sæstreng. Þar af leiðandi er ekki hægt að dæma í neinu skaðabótamáli. Þetta höfum við margítrekað farið yfir í hv. utanríkismálanefnd, ég og hv. þm. Inga Sæland.

Þá langar mig að spyrja þingmanninn aðeins frekar, vegna þess að ég á svo erfitt með að átta mig á því nákvæmlega hvað fólk er að fara fram á. Er verið að fara fram á einhvern annan og meiri fyrirvara en við höfum þegar gert á þessum tíu árum í þessu samstarfi? Eða vill fólk fara til baka til þess ástands sem var áður en við innleiddum fyrsta og annan orkupakka? Var það miklu betra? Viljum við t.d. ekki að ríkisstyrkjareglur EES gildi um þetta? Viljum við að stjórnmálamenn geti boðið gríðarlegan afslátt á orkunni okkar til að fá reist stóriðjuver? Er það það sem fólk er að biðja um? Afskipti þingmanna af raforkuverði? Það tengist reyndar ekki þriðja orkupakkanum því að ríkisstyrkjareglan á við engu að síður.

Ég ítreka aftur, virðulegur forseti, að ég átta mig ekki alveg á því hvað það er sem fólk er að biðja um annað en það sem við erum með á borðinu þar sem við höfum tryggt alla hagsmuni út í gegn. Það liggur nákvæmlega fyrir hvað það er sem við erum að fara að samþykkja og hvað það er sem við erum ekki að fara að samþykkja. Það sem hefur nú kannski fengið meiri umræðu hér er hvað er einmitt ekki í þessum ágæta pakka.