149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:34]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég var nú eiginlega að vonast til að hún færi ekki að tala um þennan fyrirvara. Ég hef sagt mitt álit á honum. Í mínum huga, og ég er nú lögfræðingur, heldur hann hvorki vatni né vindi. Það er ekki flóknara en það.

Hér er verið að tala um EES. Við höfum verið í sameiginlegu EES-nefndinni sem er búin að gefa út hitt og þetta. Við höfum aldrei nokkurn tíma komið fyrir sameiginlegu EES-nefndina með það í fanginu að við óskum sérstaklega eftir því að þurfa ekki að undirgangast og festa þennan orkupakka í sessi. Við gerðum það ekki við orkupakka eitt og ekki við orkupakka tvö.

Ég ætla að ítreka það aftur: Staðan er orðin slík núna eftir innleiðingu orkupakka eitt og tvö að auðvitað getum við ekki spólað til baka hvað það varðar. Auðvitað er raforkureikningurinn okkar orðinn miklu flóknari, auðvitað er raforkureikningurinn miklu hærri þó að kílóvattstundin sé ekki hærri. Auðvitað er það svo. Við erum að tala um sérstaka aðila sem eru með sölu og aðra sem eru með dreifingu. Það segir sig sjálft að því fleiri sem koma að markaðsstýringunni, því meira verður neytandinn að greiða. Ég hef aldrei áttað mig á því hvernig hægt er að hengja sig í það að hér hafi orkuverð ekki hækkað. Það er rétt. Það hefur ekki hækkað en orkureikningurinn er miklu hærri.

Ég vildi sjá þetta nákvæmlega þannig að við hefðum fengið það svart á hvítu, með bros á vör: Allt í lagi, Íslendingar, þið eruð snillingar og enn sem komið er virðum við ykkar stöðu. Við virðum allt þetta sem þið eruð að berjast fyrir í ykkar litla landi og þið eruð undanþegin innleiðingu á orkupakka þrjú, eins og þið eruð undanþegin innleiðingu á gasi, á sama hátt og við ætlum ekki að fara að stýra ykkar sjávarauðlind.