149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Við ræðum þetta mál, í daglegu tali nefnt þriðji orkupakkinn, í þessum þingstubbi vegna þess samkomulags sem formenn stjórnarflokkanna gerðu við formann Miðflokksins í júní sl. Eins og ég skildi það samkomulag, fyrir utan fyrirkomulag umræðunnar sem við höfum svo sammælst um á vettvangi þingflokksformanna, töldu þau sem leggjast harðast gegn innleiðingu þriðja orkupakkans mikilvægt að fá tíma til að leiða fram og sýna fram á ný gögn í málinu og nýjar upplýsingar. Það kann að vera að þetta hafi verið mín ályktun af samtölum mínum við andstæðinga málsins. Ég hef hlýtt á umræðuna í dag og fylgst sömuleiðis með því sem fram hefur komið á vettvangi hv. utanríkismálanefndar í gegnum fulltrúa Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs þar og ég verð að segja að ég varð lítillega undrandi þegar ég heyrði hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson spyrja hæstv. utanríkisráðherra í morgun hvernig stæði á því að hann væri ekki kominn hingað inn með ný gögn og nýjar upplýsingar. Ég taldi alveg ljóst að það hefði legið fyrir frá því að umræðu var lokið af hálfu flestra flokka í þingsölum að við teldum málið fullrætt og fullreifað en hins vegar vildum við gefa andstæðingum málsins þetta færi á að koma fram með ný gögn.

Það sem hefur gerst í meðförum hv. utanríkismálanefndar og í þessari umræðu hefur ekki sýnt mér fram á að nein ný gögn eða nýjar upplýsingar hafi komið fram. Þvert á móti eru fræðimenn sem og sérfræðingar sem komu fyrir nefndina í vor sammála sjálfum sér. Þeir sem lögðu fram greinargerðir, hvort sem það er Arnar Þór Jónsson sem hefur lagst gegn málinu og mælt gegn því eða Skúli Magnússon, Bjarni Már Magnússon, Margrét Einarsdóttir, Ólafur Jóhannes Einarsson og svo mætti lengi telja — þeir fræðimenn eru líka sammála sjálfum sér frá því í vor og telja engar af þeim meintu hættum sem reifaðar hafa verið í þingsal í svo löngu máli vera raunverulegar.

Ég hef hlýtt á hv. þingmenn sem leggjast gegn þessu máli vísa sérstaklega til frægrar álitsgerðar Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts. Og ég sem aðdáandi málfars hv. þm. Ólafs Ísleifssonar tók eftir því að hann kallaði þá álitsgerð jörmunsterka í andvari í morgun. Hins vegar kom skýrt fram í bréfi því sem þeir sérfræðingar sendu utanríkismálanefnd 19. ágúst 2019, eftir heimsókn þeirra til utanríkismálanefndar, að séu fyrirliggjandi skjöl lesin saman, þ.e. þingsályktunartillaga utanríkisráðherra og þingsályktunatillaga ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, auk lagafrumvarpa hins síðarnefnda, ásamt greinargerðum og öðrum gögnum, „teljum við að fyrirvörunum sé þar réttilega haldið til haga“.

Þar er sömuleiðis bent á og farið yfir í ítarlegu máli, eins og í greinargerðinni, að á þeirri hættu sem hér hefur verið boðuð, á að hægt sé að leggja hér sæstreng án samþykkis íslenskra stjórnvalda, sé tekið í þeim fyrirvörum sem íslensk stjórnvöld hafa sett við innleiðingu málsins með þeim hætti að þessir hlutar taki ekki gildi og sömuleiðis með því frumvarpi sem hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur lagt fram og við ræðum á morgun þar sem gert er ráð fyrir því að slíkur sæstrengur verði aldrei lagður nema með samþykki Alþingis.

Hingað geta hv. þingmenn komið og sagt að þeir treysti ekki stjórnmálamönnum eða hv. þingmönnum framtíðar. Ég er ósammála því. Ég ber mikið traust til Alþingis, hef setið hér í 12 ár, og ég tel að Alþingi sé sú stofnun sem mestu máli skipti í okkar stjórnkerfi. Ég ber virðingu fyrir þessari stofnun og treysti þingmönnum framtíðarinnar, ef þessi spurning kemur upp, til að kynna sér þetta mál og taka ígrundaða afstöðu til þess.

Mér finnst merkilegt að hlusta á hv. þingmenn tala eins og þingmönnum framtíðarinnar, sem og samtímans, sé ekki treystandi. Slíkur málflutningur finnst mér einkennast af því sem hefur verið kallað lýðskrum þar sem reynt er að tala niður lýðræðislegar stofnanir sem eru grundvallarstofnanir í frjálslyndum lýðræðisríkjum og tryggja einmitt að sjónarmið minni hluta njóti verndar, að stjórnmálin séu lykilþáttur í því að vernda lýðræðið.

Ég hef líka heyrt hér vísað í fréttir um að fyrir liggi kröfur um einkavæðingu í raforkugeiranum í Frakklandi á grundvelli þriðja orkupakkans. Það mál sem þar er vísað til snýr að veitingu tímabundinna nýtingarleyfa fyrir vatnsafl. Það snýr ekki að einkavæðingu ríkisfyrirtækja eða auðlindar.

Hér hefur verið vísað í mál í Belgíu sem er líka algjörlega ósambærilegt innleiðingu þessa máls hér og snýst um að eftirlitsstofnunin í Belgíu sé ekki nægjanlega sjálfstæð. Við getum haft skoðanir á því hvort við viljum að eftirlitsstofnanir séu sjálfstæðar eða ekki. Vissulega er rétt að í þriðja orkupakkanum er gerð krafa um sjálfstæði eftirlitsstofnana. Ég tel það fremur til bóta en hitt, tel ekki endilega að eftirlitsstofnanir eigi að vera ofurseldar hinu pólitíska valdi eins og mér heyrist einhverjir hv. þingmenn vilja. Hvað sem því líður er þetta mál ekki sambærilegt þeirri innleiðingu sem við ræðum hér. Og á morgun er á dagskrá mál sem snýr einmitt að því að tryggja Orkustofnun nauðsynlegt sjálfstæði til að geta sinnt eftirliti sínu.

Ég hef heyrt hér, man ekki hvort það var í dag, að í Noregi sé rekið mál fyrir sérstökum stjórnlagadómstól. Það er reyndar ekki stjórnlagadómstóll í Noregi en vissulega er þar mál rekið fyrir héraðsdómstóli. Það mál er rekið af norsku samtökunum Nei til EU, mál sem þau hafa höfðað gegn norska ríkinu um það hvort rétt grein norsku stjórnarskrárinnar hafi verið notuð við meðferðina á norska Stórþinginu. Um það hef ég það að segja að það varðar okkur ekki því að stjórnarskrár þessara ríkja eru ekki sambærilegar. Við erum ekki með framsalsákvæði í okkar stjórnarskrá sem gerir ráð fyrir meiri háttar eða minni háttar framsali. Við getum deilt um hvort við viljum sjá yfir höfuð ákvæði um framsal valdheimilda í stjórnarskrá og hvort það eigi að vera eins og hið norska en hvað sem kann að koma út úr því dómsmáli hefur það ekki áhrif á málið sem við ræðum hér og nú. Og það hefur ekki áhrif á íslensku stjórnarskrána af því að hún er með allt öðrum hætti.

Þeir sérfræðingar sem hafa verið kallaðir til og verið spurðir álits á því hvort málið standist hina íslensku stjórnarskrá hafa veitt þau svör að þarna sé verið að innleiða tveggja stoða lausn eins og við höfum viljað sjá í öðrum þeim umfangsmiklu málum sem við höfum verið að ræða og raunar miklu umfangsmeiri málum en þetta mál er þegar kemur að framsali valdheimilda. Ég vísa þar sérstaklega í mál sem ég ræddi ítarlega á sínum tíma og varðar framsal valdheimilda þegar kemur að eftirliti með regluverki fjármálamarkaðarins.

Ég er ekki á því, eftir að hafa hlýtt á umræður, að ný gögn eða nýjar upplýsingar hafi komið fram. Þvert á móti tel ég að málið sé, rétt eins og það var í vor, fullrætt og fullreifað. Þetta er mál sem hefur verið í undirbúningi á vettvangi Alþingis allt frá árinu 2010. Við undirbúning málsins hafa þrjár þingnefndir fjallað um það, atvinnuveganefnd, utanríkismálanefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Í álitum sem þessar nefndir sendu frá sér skrifuðu þingmenn allra flokka undir. Í tíð ríkisstjórnar sem leidd var af hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, sem hefur leitt þessa andstöðu, var haldið áfram að vinna málið og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sendi ágætisminnisblöð inn í utanríkismálanefnd um málið.

Hvað veldur þá þeim áhyggjum, sem ég og fleiri þingmenn skynjum, í kringum þessa umræðu? Mitt mat er að inntak þriðja orkupakkans gefi ekkert tilefni til slíkra áhyggja. Ég fer um landið og tala við fólk. Ég heyri af hverju fólk hefur áhyggjur, fólk er ósátt við að það sé ekkert ákvæði í stjórnarskrá Íslands um sameign þjóðarinnar á auðlindum, ákvæði sem við greiddum atkvæði um í þjóðaratkvæðagreiðslu og yfir 80% þjóðarinnar vildu fá slíkt ákvæði. Geta hv. þingmenn kannski tekið sig saman um að þetta þing ljúki afgreiðslu slíks ákvæðis sem hefur verið í birtingu á samráðsgátt Stjórnarráðsins í nokkra mánuði og gerir ráð fyrir því að þessi þjóðareign verði undirstrikuð í stjórnarskrá? Geta hv. alþingismenn sammælst um að koma til móts við þessar áhyggjur sem við heyrum og tryggja þannig í stjórnarskrá slíka sameign? Það skiptir verulegu máli í því samhengi sem við erum að ræða hér. Geta hv. þingmenn sammælst um að við setjum skýrari ramma um landakaup á Íslandi?

Ég get líka sagt hv. þingmönnum að ég er alveg viss um að allir hér í salnum heyra sömu áhyggjur og ég þegar við ræðum þriðja orkupakkann. Fólk segir: Bíddu, hér er verið að kaupa land og landinu fylgja vatnsréttindi eins og hefur verið í innlendri löggjöf. Það var ekki óvart sem eitt fyrsta mál sem kom fyrir Alþingi Íslendinga eftir að við urðum fullvalda þjóð varðaði reglur um landakaup. En hér hefur því miður lenskan verið sú að losa um þennan ramma, þetta utanumhald, á síðustu árum og áratugum og ekki verið pólitískur vilji til þess hingað til að setja skýrari ramma. Við erum með hvað frjálslegasta löggjöf innan EES um þessi mál og gætum litið til annarra landa, hvort sem er Danmerkur, Noregs eða Írlands, um skýrari ramma. Gætum við hugsanlega sammælst um að ræða hvort það sé eðlilegt að vatnsréttindi fylgi landsréttindum?

Ég heyrði ekki andstæðinga þriðja orkupakkans hafa miklar áhyggjur af því að hér eru erlendir fjárfestar að fjárfesta fyrir á fimmta milljarð í vatnsverksmiðjum. En í hverju eru þessir fjárfestar að fjárfesta? Þeir eru að fjárfesta í vatnsréttindum og vatnsauðlindinni. Hv. þingmenn koma hingað upp og lýsa áhyggjum en eigum við þá ekki bara að drífa okkur í því að endurskoða þennan ramma? Eigum við ekki að sammælast um það, hv. þingmenn á Alþingi Íslendinga, að við tökum upp það nýmæli sem hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur lagt til, að það verði Alþingis að samþykkja sæstreng í staðinn fyrir að hafa þetta fullkomlega í lausu lofti, eins og það var þegar hv. þingmaður, hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, setti af stað könnunarviðræður um sæstreng án þess að Alþingi hefði samþykkt nokkuð um það?

Eigum við ekki að sammælast um að tryggja hlutverk Alþingis í svona mikilvægum ákvörðunum?

Ég var að ræða stjórnarskrárbreytingar og hér hefur mikið verið rætt um óvissuna um stjórnarskrána. En við teljum henni mætt við innleiðingu málsins með tveggja stoða lausn þar sem ESA gegnir í raun því hlutverki sem ACER gegnir fyrir Evrópusambandið, alveg eins og við höfum áður fallist á þegar kemur að fjármálakerfinu og ýmsum öðrum umfangsmiklum regluverksbreytingum. En getum við þá kannski sammælst um að rétt sé að setja framsalsákvæði í stjórnarskrá?

Þetta leiðir okkur auðvitað að spurningunni: Um hvað snýst okkar alþjóðlega samstarf? Við eigum ekki að óttast fullveldi okkar og það verður einmitt skýrast þegar við erum í alþjóðlegu samstarfi á jafnræðisgrundvelli en þá skiptir líka máli að við tölum skýrt um það hvað er í okkar valdi og bendum ekki bara út fyrir landsteinana á einhverja aðra sem beri ábyrgð á þeim vanda sem við teljum vera uppi.

Ég tel margar þær áhyggjur sem ég hef heyrt viðraðar í kringum umræðu um þetta mál eiga rétt á sér. Ég held að Alþingi eigi að koma til móts við þær áhyggjur með skýrari lagaramma um auðlindirnar, um jarða- og landakaup og um framsal valdheimilda, en þær ákvarðanir liggja hjá okkur sjálfum. Hér hafa flestir hv. þingmenn sem hafa tekið til máls einmitt lýst yfir stuðningi sínum við EES-samninginn og bent á að hann hafi reynst landi og þjóð til hagsbóta þrátt fyrir ýmsa galla. Horfum þá á það hvað við getum gert til að mæta þeim áhyggjum sem almenningur í landinu hefur af yfirráðum yfir auðlindum því að þar höfum við ekki staðið okkur sem skyldi að mínu viti.

Ég heiti á alþingismenn að sammælast um þau mál sem ég hef farið hér yfir og skipta okkur öll gríðarlegu máli og skipta almenning í landinu máli. Ég tel þetta mál jafn vel undirbúið og jafn vel reifað og ég taldi í vor og ég mun styðja það á mánudaginn þegar það kemur til afgreiðslu. Ég tel margt í þessari umræðu hreinlega ekki standast skoðun þó að það tengist ýmsu öðru sem ég tel ástæðu til að ræða.

Þar með vil ég ekki gera lítið úr neinum af þeim sem hér hafa rætt og lýst sinni skoðun á þessu máli. Það er eðlilegt að við skiptumst á skoðunum en þessi umræða er að mínu viti tæmd. Við eigum að ljúka henni og halda áfram með það verkefni sem ég hef lýst sem snýst um að við mætum þessum áhyggjum og tökum á þeim með viðeigandi hætti en þyrlum ekki upp ryki í kringum mál sem í raun og veru tengist þeim ekki.