149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:53]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja einfaldrar spurningar. Á bls. 5 í þingmálinu er kafli 4.2., Fyrsti og annar orkupakkinn. Þar segir orðrétt:

„Samkvæmt aðlögunartexta í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar var Ísland skilgreint sem „lítið einangrað raforkukerfi“ og gat sem slíkt sótt um undanþágur frá ákveðnum greinum annarrar raforkutilskipunar ESB (varðandi aðskilnað dreifingar frá framleiðslu og sölu raforku) eftir því sem ástæða væri talin til.“

En það sem er merkilegast við þetta er að þar fyrir neðan stendur:

„Stjórnvöld hafa hingað til ekki nýtt þessar undanþáguheimildir.“

Hvers vegna í ósköpunum ekki? Sendum við þetta ekki bara núna og segjum: Við ætlum að nýta okkur þessa undanþáguheimild? Þá getum við hætt að rífast um þetta. Fáum undanþágu frá raforkunni og málið er búið. Þá erum við ekki að rífast endalaust um sama hlutinn. Við getum bara hætt þessu.