149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:55]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svarið. Ég vil líka taka fram að við höfum undanþágur frá gasi. Það var sagt hérna í ræðustól að við værum ekki að framleiða jarðgas, sem er rangt. Metanið sem við framleiðum á Álfsnesi er að meiri hluta til jarðgas. Þetta kemur skýrt fram á heimasíðu Sorpu. Þarna erum við að brenna umframjarðgasi. Við notum hluta af því á bílaflotann en þarna er 600°C ofn sem er verið að kynda upp Álfsnesið með því við notum ekki þetta gas. Þetta var í fréttunum fyrir ekki svo löngu og var brennarinn sýndur.

Þess vegna segi ég: Við höfum undanþágur frá gasi. Af hverju í ósköpunum segjum við ekki: Fyrsti og annar orkupakkinn eru nóg, nú fáum við undanþágu. Við erum ekkert að innleiða sameiginlega orkupakka Evrópu, tengingar milli landa. Við erum ekkert með þetta. Við þurfum ekkert að vera að rífast um það hér eða taka það upp. Við eigum bara segja: Við fáum undanþágu alveg eins og með gasið.