149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:59]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Af því að hann nefndi sérstaklega bréf Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts til nefndarinnar núna í ágúst tel ég rétt að vitna til greinargerðar sem ég hef áður vitnað til í þessari pontu sem er sú sem þeir sendu þinginu í apríl. Þar segja þeir í fyrsta lagi að það sé enginn lögfræðilegur vafi á því og lögð er til grundvallar að þessi leið sé í samræmi við stjórnarskrá. Að þeirra mati skiptir sú staðreynd mestu og er það í samræmi við þá álitsgerð sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni.

Sömuleiðis fara þeir yfir kosti og galla beggja leiða. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður taldi að sú leið sem stjórnvöld höfðu valið væri næstbesta leiðin. Það eru hans orð. Þeir benda á það í bréfi sínu að hvorug leiðin sé gallalaus. Það liggur fyrir miðað við efni og inntak málsins. Miðað við efni og inntak málsins, sem farið hefur verið vandlega yfir, töldum við þessa leið algjörlega fullnægjandi.