149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:01]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð því miður að leiðrétta hæstv. forsætisráðherra. Næstbesta leiðin eru ekki mín orð. Næstbesta leiðin eru orð Stefáns Más Stefánssonar á fundi utanríkismálanefndar 19. ágúst sl. þegar hann áréttaði að aðaltillaga þeirra í málinu væri að fara með málið fyrir sameiginlegu nefndina.

Hæstv. forsætisráðherra las upp úr bréfi þeirra tvímenninga til utanríkisráðherra frá 10. apríl. Ef lengra er lesið sést glöggt að þeir hafa áhyggjur af því að hinn lagalegi fyrirvari gæti orðið tilefni samningsbrotamáls. Þeir ræða það í þessu bréfi að sá möguleiki sé uppi en fara síðan yfir ýmsa þætti sem þeir telja að dragi úr líkum á því. En möguleikinn er greinilega fyrir hendi í þeirra huga. Í álitsgerð sinni taka þeir upp að eigin frumkvæði möguleikann á samningsbrotamáli og skaðabótamálum. Þetta gera þeir á bls. 35, í neðanmálsgrein 62. Af því (Forseti hringir.) verður að draga þá ályktun að við höfum kannski ekkert um það að segja hvort (Forseti hringir.) hér verði lagður sæstrengur að landsins ströndum nema við séum (Forseti hringir.) reiðubúin til að greiða fyrir það (Forseti hringir.) í formi skaðabóta.