149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:02]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir. Ef hann er eingöngu að horfa til þess sem lýtur að því hvort Íslendingar séu skuldbundnir til að leggja sæstreng og fái á sig samningsbrotamál ef því verður hafnað, sem mér fannst hv. þingmaður vera að nefna, þá höfum við að sjálfsögðu álitsgerðir og greinar og álit frá Skúla Magnússyni, Bjarna Má Magnússyni, Margréti Einarsdóttur sem öll telja að það liggi algerlega í höndum íslenskra stjórnvalda hvort hér verði lagður sæstrengur eða ekki, stjórnvalda sem ég treysti, eins og ég fór yfir áðan, hvort sem það eru þingmenn samtíðar eða framtíðar.

Ég vil líka segja að í bréfi frá Stefáni Má Stefánssyni og Friðriki Árna Friðrikssyni Hirst frá því í apríl er sérstaklega reifuð sú staðreynd að slíkri tengingu verði ekki komið á nema með samþykki Alþingis, að mjög ósennilegt sé að ESA muni gera athugasemdir við þessa leið og sömuleiðis segja þeir að hvorug leiðin sé gallalaus. Nú sat ég ekki fund utanríkismálanefndar og tek það fram að ég taldi að hv. þingmaður væri að nota sín orð þegar ég hlustaði á hann í morgun.