149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:04]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra ræðuna. Hún var misgóð þótti mér, en eitt verð ég að leiðrétta, það voru ástæður samninganna hér við þinglok. Þær voru að miklu leyti líka til þess að stjórnarliðar kæmu heim í sumarfrí. Það voru meiri áhyggjur af því heldur en nýjum upplýsingum þegar verið var að ganga frá því. En það skiptir ekki öllu máli í dag.

Það hefur verið gegnumgangandi tónn hjá stuðningsmönnum innleiðingar þriðja orkupakkans hér í dag að tala um að ekkert nýtt hafi komið fram í málinu. Vissulega hafa efnisatriði verið nefnd á fyrri stigum. En mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra þeirrar spurningar hvort hún upplifi það raunverulega þannig að ekkert nýtt hafi komið fram í málinu í allt sumar. Mig langar sérstaklega að vísa í umræðu um möguleg samningsbrotamál og að skaðabótaskylda gæti orðið raunin vegna brota okkar á fjórfrelsisreglum EES-samningsins. Vissulega voru þessir hlutir nefndir, en mér þykir (Forseti hringir.) það ansi harkaleg nálgun á nýjar (Forseti hringir.) upplýsingar ef sú dýpkun umræðunnar (Forseti hringir.) sem átti sér stað í sumar kom ekki fram með neitt nýtt í þessum efnum.