149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:05]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð nú fyrst að fá að gera athugasemd við orð hv. þingmanns um að ég eða einhver annar hafi endilega viljað komast í sumarfrí. Mér finnst það ekki vera á mjög háu plani svo ég segi það alveg heiðarlega. Það lá alveg skýrt fyrir af hálfu þeirra sem ræddu þetta mál hvað mest hér í sumar að þau töldu að ekki væru allar upplýsingar komnar fram og það væri mikilvægt að gefa málinu meiri tíma. Við því var orðið. Mér finnst þetta nú ekki til þess að lyfta þessari umræðu, ef ég má vera algjörlega heiðarleg, herra forseti.

Hv. þingmaður nefnir möguleg samningsbrotamál og það er rétt að þau voru rædd á fyrri stigum og þau hafa verið rædd áfram eins og mjög mörg önnur sjónarmið í tengslum við þriðja orkupakkann. Það sem ég benti á í minni ræðu — og hv. þingmanni þykir ég dómhörð og vafalaust er ég það — þá sé ég ekki að þeir fræðimenn sem hafa einmitt fjallað um þau mál hafi skipt um skoðun á málinu. Vafalaust hefur þetta dýpkað umræðuna fyrir einhverjum(Forseti hringir.) en ég tel að staðreyndirnar hafi flestar legið fyrir og ólík sjónarmið fyrr í sumar eða vor.