149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Af hverju hef ég ekki áhyggjur? Af því að ég tel að við séum að innleiða þetta með réttum hætti. Ég vísaði áðan, þegar ég reifaði þetta mál, í frumvarp hæstv. ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra þar sem er verið að leggja til að raforkueftirlit Orkustofnunar verði eflt með því að skýra nánar hlutverk og sjálfstæði Orkustofnunar og að henni verði falin aukin úrræði til að framfylgja lögunum. Það er það sem gerð hefur verið athugasemd við af hálfu Evrópusambandsins gagnvart belgískum stjórnvöldum. Ég sé hreinlega ekki líkindin með því máli og þessu sem er hér uppi á teningnum.

En hins vegar er það svo að hér er alltaf töluverður fjöldi slíkra samningsbrotamála í gangi, þau nema hundruðum. Það er auðvitað hluti af þessu samstarfi öllu, við erum með samræmingu á regluverki í þeim hlutum sem heyra undir EES-samninginn og þar koma að sjálfsögðu upp túlkunaratriði og ágreiningur.