149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:12]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mig langar í seinna andsvari mínu að koma inn á þann gríðarlega áhuga sem fjárfestar virðast hafa í dag á að reisa vindmyllur hér. Það eru um 86 vindmyllur í pípunum, m.a. í Garpsdal og Hróðnýjarstöðum og á Sólheimum í Laxárdal. Þykir mér það furðu sæta þar sem verð á raforku er ekki það dýrt hér á landi að mönnum hafi þótt það arðbært að fara mikið út í svona stórtæka framleiðslu. Getur ráðherrann ekki tengt þetta við að menn sjái sér von í því sem fjárfestar? Þeir myndu ekki fjárfesta nema þeir sjái arð í því að raforkuverð gæti farið hækkandi. Er ekki samhengi þar á milli?

Og eins það að virðisauki í rafmagni — ég set hann í samhengi við virðisauka í fiski, að við gætum gert miklu meira fyrir framleiðslumál okkar í rafmagni ef við fullnýttum rafmagnið heima, hvað á ég að segja, kannski ekki bara í stóriðju, heldur (Forseti hringir.) í grænmetisframleiðslu og annað slíkt þannig að við eigum það ekki á hættu að raforkuverð myndi hækka of mikið.