149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:28]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Karl Gauti Hjaltason óskar hér eftir og biður mikið um rökstuðning. Þá myndi ég gjarnan vilja óska eftir rökstuðningi frá hv. þingmanni, af því að ég hef ekki heyrt mjög skýran rökstuðning frá hv. þingmanni um að þriðji orkupakkinn fjalli um lagningu sæstrengs eða skyldu íslenska ríkisins til þess. Vegna þess að um það fjallar þriðji orkupakkinn ekki.

Mig langar til að fá fram skoðun hv. þingmanns á þeim sérfræðingum sem fram hafa komið, bæði í ræðu og riti, sem eru sérfræðingar í þjóðarétti, hafrétti og í Evrópurétti, og hafa akkúrat talað um að aðfaraorð reglugerðarinnar sem við ræðum hér hafi ekki lagalega skyldu út frá þjóðarétti, hafrétti eða Evrópurétti til þess að íslenska ríkið leggi sæstreng til eða frá Íslandi til Evrópusambandsríkja.

Sömuleiðis langar mig til að óska eftir því að hv. þingmaður rökstyðji með alvarlegum hætti hvers konar skaðabótaskyldur hann er að tala um, og hefur minnst á í ræðum, sem íslenska ríkið standi frammi fyrir ef íslenska ríkið neiti því að leggja sæstreng milli Íslands og Evrópusambandsríkja. Hvaða skaðabótaskyldur er um að ræða? Á hverju eru þær byggðar? Ég myndi gjarnan vilja fá að heyra almennilegan rökstuðning frá hv. þingmanni þegar kemur að því að fullyrða svona.