149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:30]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur fyrir andsvar hennar. Hún vildi fá rökstuðning hvort þriðji orkupakkinn fjalli um sæstreng, heyrðist mér hún segja. Þriðji orkupakkinn fjallar um tengingar á milli landa. Hann fjallar um hver stjórni því og setur á laggirnar stofnun úti í Evrópu sem hefur yfirumsjón með því að regluverkinu verði fylgt.

Skaðabótaskylda. Í hverju felst skaðabótaskyldan? Það er einfalt svar við því. Við höfum, því miður, þurft að glíma við það að fá á okkur dóma fyrir að fara ekki eftir Evrópureglum varðandi ófrosna kjötið. Við höfum fengið á okkur dóma og dómar hafa gengið þar sem við erum ekki að fara eftir þeim reglum Evrópusambandsins sem við höfum undirgengist. Það er mjög sambærilegt að mörgu leyti. Þessir dómar hafa fallið á okkur.

Við getum auðvitað, hv. þingmaður, farið út á Keflavíkurflugvöll og stoppað þar ófrosið kjöt. Við getum örugglega í okkar valdi farið þangað og stoppað það ef það væri að koma hingað. Við gætum einfaldlega sagt: Ekkert ófrosið kjöt hér. Sendið það til baka.

En hvað kæmi þá upp úr dúrnum? Við fengjum á okkur skaðabótakröfu. Svo lengi sem við myndum stoppa fengjum við á okkur skaðabótakröfu. Við höfum fengið hana. Við erum einmitt að kljást við það og erum að innleiða núna réttilega löngu síðar.

Þetta er nákvæmlega sama staðan og álitsgjafar ríkisstjórnarinnar hafa verið að benda á, eins og ég las upp og ætla ekki að lesa upp aftur, að við getum auðvitað hafnað því að hingað komi skip með sæstreng sem ætli (Forseti hringir.) að leggja hann upp að ströndum landsins. Við gætum bara sagt nei. En hvað kæmi í staðinn? Við fengjum á okkur samningsbrotamál og skaðabótamál.