149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna sem að mér skilst er hans fyrsta ræða um þetta stóra og mikilvæga mál í þessum þingsal. (KÓP: Snýst ekki um magn, heldur gæði.) Hæstv. ráðherra talaði um ákvarðanir Framsóknarflokksins í ræðu sinni. Þá er rétt að rifja þær aðeins upp. Frá haustfundi Framsóknarflokksins dagana 17.–18. nóvember 2018 segir, með leyfi forseta:

„Orkuauðlindin er ein af mikilvægustu forsendum velmegunar í landinu. Miðstjórn Framsóknarflokksins áréttar mikilvægi þess að allar ákvarðanir í orkumálum verði í höndum Íslendinga og minnir á að stjórnarskrá Íslands leyfir ekki framsal ríkisvalds til erlendra stofnana. Aðstæður Íslands í orkumálum eru gjörólíkar þeim sem liggja til grundvallar orkulöggjöf ESB og því er óskynsamlegt að innleiða það regluverk hér.“

Óskynsamlegt að innleiða það regluverk hér, segja Framsóknarmenn á miðstjórnarfundi í nóvember 2018.

„Auk þess hefur Ísland enga tengingu við orkumarkað ESB og Framsóknarflokkurinn telur slíka tengingu ekki þjóna hagsmunum landsmanna. Því skal fá undanþágu frá innleiðingu þriðja orkupakkans.“

Nú hef ég áhuga á að fá svar frá hæstv. ráðherra við spurningunni hvers vegna þingflokkurinn hefur fallið frá þeirri skynsamlegu stefnu og ályktun Framsóknarflokksins. Ég þekki marga ágæta Framsóknarmenn sem eru skynsamir og ályktunin er þess efnis. Hvað veldur þessari breytingu, hæstv. ráðherra?