149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:54]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og vona að honum hafi tekist að sannfæra flokksmenn sína. Ég hef hins vegar heyrt af öðru, að það ríki mikil óánægja með þá ákvörðun Framsóknarflokksins, þ.e. þingflokksins, að ganga gegn þessari ályktun. Hæstv. ráðherra minntist einnig í ræðunni á landbúnaðinn. Hann er fyrrverandi landbúnaðarráðherra og kemur úr miklu landbúnaðarhéraði þar sem m.a. er mekka garðyrkjunnar, ef svo má að orði komast.

Þá er rétt að víkja að því að það eru ekki einungis heimilin í landinu sem þurfa á því að halda að orkuverð hækki ekki meira en það hefur þegar gert og ég hef rakið að hafi hækkað við innleiðingu orkupakka eitt og tvö. Það er einnig fjöldinn allur af fyrirtækjum sem á rekstur sinn undir því að raforkuverðið haldist stöðugt og garðyrkjubændur eru meðal þeirra sem þurfa mikla orku til ræktunar. Í dag eru um 30% af kostnaði við rekstur garðyrkjustöðva til komin vegna kaupa á raforku. Samkvæmt því sem kemur fram frá formanni Sambands garðyrkjubænda mun garðyrkja leggjast af á Íslandi í þeirri mynd sem hún er í komi til samþykktar þriðja orkupakkans og í framhaldi af því sæstrengs. Þetta kemur frá formanni Sambands garðyrkjubænda þannig að ég vil spyrja hæstv. ráðherra, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, ráðherra garðyrkjumála á sínum tíma, hvort hann hafi ekki áhyggjur af afstöðu garðyrkjubænda til samþykktar þessa orkupakka.