149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:56]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisandsvar. Ég er sammála hv. þingmanni í því að það er áhyggjuefni að úti í samfélaginu sé búið að blása til þvílíks ófriðar og storms að meira að segja skynsömustu menn eins og vinur minn, Gunnar Þorgeirsson, formaður garðyrkjubænda, hafi látið þessa yfirlýsingu frá sér fara síðastliðinn vetur í ljósi þess að það er verulegur ágreiningur um það hvort þessir orkupakkar hafa hækkað verð eða jafnvel lækkað. Ég veit að hv. þingmaður hefur haldið því fram og verið með ágæt rök í einstökum dæmum hjá HS Veitum þess efnis en staðreyndin er sú, og ef hv. þingmaður hefði hlustað á ræðu mína hefði hann heyrt það, að þetta eru íslensk lög. Það er fyrst og fremst dreifingarkostnaðurinn sem hefur hækkað á Íslandi. Við höfum reyndar náð fram sparnaði eða notað minni orku sem nemur, ef ég man rétt, notkun 25.000 rafbíla. Þeir eru orðnir 3.500 þannig að við eigum talsverða orku inni sem heimilin í landinu hafa sparað sér með því að hafa á grundvelli orkupakka eitt og tvö fengið hagkvæmari raforkutæki sem nota minni orku.

Orka hefur hækkað eins og margt annað, dreifingarkostnaðurinn mest, en það eru íslensk lög. Það er ekki við orkupakkann að sakast, ekki Norðmenn, Evrópusambandið eða einhverja aðra. Það er við okkur sjálf að sakast. Við höfum verið með það fyrirkomulag gagnvart garðyrkjunni að við höfum endurgreitt allt að 95% af dreifikostnaðinum vegna þess að það er ekki til nein gjaldskrá fyrir þá stórnotendur rafmagns. Eigum við að skoða það, hv. þingmaður? Er hv. þingmaður og aðrir þingmenn tilbúnir að koma með mér í það að velta fyrir okkur hvernig við getum skotið sterkari stoðum undir matvælaframleiðslu sem byggist á raforkunotkun í garðyrkju með því að vera með eðlilegri gjaldskrá fyrir þessa aðila og tryggja þá kannski eðlilegri niðurgreiðslu á dreifikostnaðinum? Staðreyndin er sú að þeir borga sannarlega nægilega fyrir dreifikostnaðinn sem það kostar að fá rafmagnið til sín, þeir nota bara miklu meira og hún er ekki sanngjörn gjaldskráin sem við erum með, þess vegna hefur ríkið farið út í endurgreiðslur. (Forseti hringir.) Þetta eru íslensk lög, hv. þingmaður, þetta hefur ekkert með orkupakkann að gera.