149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:00]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágætisandsvar sem veitir mér tækifæri til að játa á mig einn glæp. Ræða utanríkisráðherra fór fram hjá mér í morgun. Ég held að það sé eina ræða dagsins sem ég missti af þannig að ég heyrði ekki þegar hann taldi upp þessi fyrirtæki. Ef hv. þingmaður hefði hlustað grannt eftir ræðu minni var ég ekki að tala um það. Ég var að tala um að þessi fyrirtæki hefðu sótt fram á alla heimsins markaði vegna þess að við værum með alþjóðasamninga, vegna þess að við værum með virka samninga við fjölmörg lönd, m.a. samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fríverslunarsamninga og eðlileg samskipti við sem flesta. Ég benti bara á að víða skipti þetta máli, til að mynda hjá Kerecis á Ísafirði og öðrum stærri fyrirtækjum sem hafa notið þess í útrásinni um alla heimsins markaði að Ísland er með fjölmarga fríverslunarsamninga og er með þann samning sem hefur gagnast okkur best, samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og markaðinn sem þar er boðið upp á.

Auðvitað er það líka þannig að vörur allra þessara fyrirtækja sem byggja talsvert mikið á tæknilausnum falla undir þá staðla sem eru settir á þessum mörkuðum og þeir eiga þar af leiðandi auðveldara með að fara um. Eins þurfa þeir að kaupa tæki frá öðrum sem eru þá líka stöðluð sem m.a. hafa orðið til þess að þau nota minna rafmagn og eru þar af leiðandi hagkvæmari í rekstri fyrir fyrirtækin í landinu.

Ég var bara að benda á það, ég var ekki með neinar hótanir eða hræðsluáróður um að þetta hefði eitthvað sérstaklega vond áhrif fyrir einhver fyrirtæki í landinu. Ég var bara að nefna sérstaklega að það er mikilvægt að við séum tilbúin að verja þá stöðu sem við höfum náð á löngum tíma, með því að afla okkur viðskiptasamninga við fjölmörg ríki. Það er mikilvægt fyrir Ísland að halda áfram á þeirri braut. (Forseti hringir.) Í því liggur framtíðin að stækka möguleikana og tækifærin fyrir framtíðarkynslóðir Íslendinga.