149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:25]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir efnismikla og raunar mjög athyglisverða ræðu. Málið snýst í sínum innsta kjarna um val á tveimur leiðum eins og það liggur fyrir í álitsgerð þeirra Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar. Önnur leiðin er að virkja 102. gr. Vissulega er það ekki án pólitískra vandamála, það yrði auðvitað að leita eftir pólitískum stuðningi og á réttum vettvangi. Hin leiðin er að samþykkja fyrirliggjandi þingsályktunartillögu en með lagalegum fyrirvara þó að, eins og hefur verið rakið í dag og á fyrri stigum umræðunnar, leit virðist vera að nokkrum manni sem álítur að slíkur lagalegur fyrirvari eins og hann hefur verið kynntur eða þeir kynntir hafi þjóðréttarlegt gildi. Þar er uppi lögfræðilegur vafi.

Í innsta kjarna er málið kannski um valið milli þeirra leiða og nánar tiltekið um, eins og hæstv. ráðherra nefndi, mat á þeirri þörf sem er á því að virkja 102. gr. Ég ætla að leyfa mér að segja að mitt mat á þeirri þörf ræðst ekki síst af eindregnum viðvörunarorðum í álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar sem varða ákvörðunarvald sem lýtur að skipulagi, ráðstöfun og nýtingu mikilvægra íslenskra orkuauðlinda, þeirri athugasemd að þetta sé mesta valdframsal í 25 ára sögu samningsins hér á landi og í þriðja lagi líkja þeir þessu við að erlendri stofnun væri fengið ákvörðunarvald um heildarafla (Forseti hringir.) á Íslandsmiðum.

Mín spurning til hæstv. ráðherra er: Hvað ræður mati hans á þeirri þörf? (Forseti hringir.) Kannski örlítið ítarlegar: Hvaða hættu telur hann á að þær hamfarir gangi hér yfir, eldur og brennisteinn, sem ýmsir hafa haldið fram (Forseti hringir.) að yrði afleiðing af því ef við samþykkjum ekki tillöguna? Ég heyrði tóninn í ræðu hæstv. ráðherra í þessu (Forseti hringir.) en ég óska eftir að heyra örlítið nánar (Forseti hringir.) frá honum um þetta efni.