149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ástæðan fyrir því að ég bar upp þessa spurningu við hv. þingmann var einmitt sú að ég vildi skilja nákvæmlega hvað hann var að fara með eigin spurningu. Hann heldur áfram að spyrja að því hvort menn hafi ekki áhyggjur af því að Ísland standi frammi fyrir skaðabótamáli ef einhver vill tengjast netinu. Ég verð þá bara að ganga út frá því að hv. þingmaður telji að í þessari þingsályktunartillögu og meðfylgjandi málum felist einhver slík skylda þó að það standi hvergi. Það stendur hvergi og ég vísa í allar aðrar álitsgerðir um þetta efni. Það er t.d. komið stuttlega inn á þetta í álitsgerð Davíðs Þórs Björgvinssonar doktors þar sem hann bendir á að á meðan engin tenging er fyrir hendi hafi þessir þættir málsins enga raunhæfa þýðingu á Íslandi.

Þegar hv. þingmaður spyr mig hvort ég hafi engar áhyggjur af þessu vísa ég í alla þá vinnu sem hér hefur verið unnin til vitnis um að menn hafa verið að gaumgæfa þetta alveg sérstaklega. Er það þá ekki til vitnis um að menn hafi viljað vanda sig, m.a. út af svona ábendingum? Ég tel að það hljóti að vera.

Áðan var spurt hvort ég telji að einhverjar hamfarir geti dunið yfir okkur ef við klárum ekki málið. Nei, það tel ég ekki.

Þá spyrja menn í framhaldinu: Af hverju eruð þið að flýta ykkur? Við erum ekki að flýta okkur. Við höfum unnið í þessu máli í mörg ár. Því hefur verið frestað. Það hafa verið fengnar álitsgerðir hver á eftir annarri. Við samþykktum meira að segja að fresta málinu fram á haustið. Menn vildu koma með frekara efni inn í málið. Mér finnst það nú vera afskaplega rýrt í roðinu þó að mér þyki seinna nefndarálitið, framhaldsnefndarálitið, sýnu skárra en það fyrra hjá minni hlutanum. En menn hafa ekkert verið að flýta sér. Stundum er bara kominn tími til að taka ákvörðun og í þessu máli er sá tími runninn upp.