149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:35]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir hans innihaldsríku ræðu. Ég ætla að vaða beint í efnið, ég er ekki komin hingað til að tala um lagalega fyrirvara eða hvar þriðji orkupakkinn er staddur gagnvart okkur og tengingu á innra raforkukerfi Evrópu þegar við höfum innleitt hann. Mig langar að vera pínulítið á sömu nótum og þegar ég var með fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra í morgun og snúa mér beint að markmiði samningsins og samningalegri stöðu okkar gagnvart EES-samningnum. Hvert er, hæstv. fjármálaráðherra, að þínu mati hið eiginlega markmið með raforkustefnu Evrópusambandsins? Hver er raunveruleg samningsstaða okkar gagnvart EES-samningnum? Telur hæstv. fjármálaráðherra að við séum eiginlega á hnjánum gagnvart þeim og verðum bara að vera stillt og prúð þegar svo er komið, annars verði okkur refsað á einhvern hátt sem enginn veit? Það er einn ákveðinn hræðsluáróður sem hefur verið hafður í frammi, að enginn veit fyrr en reynir á, eins og segir í textanum góða, hvort vini áttu þá. Spurningin er þessi og eitt enn: Erum við kannski búin að vera svo steinsofandi á verðinum í gegnum tímann að við höfum ekkert látið reyna á eiginlega samningsstöðu okkar gagnvart samningnum og þá hugsanlega vegna þess að við höfum ekki haft bolmagn til þess, mannskap, að fylgjast með hvað virkilega snertir okkur til framtíðar í gegnum ESB með alls konar tilskipunum og gerðum sem við höfum verið að innleiða? Þetta eru kannski fullmargar spurningar en við höfum nógan tíma.