149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef ég leyfi mér að umorða þessa spurningu finnst mér vera spurt um það hvaða ávinningur er af því fyrir Íslendinga að hafa orkumálin inni í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þetta er algjörlega gild spurning. Mér finnst persónulega að það megi varpa upp þeirri spurningu hvort það hafi verið góð ráðstöfun á sínum tíma. Mér sýnist að margt gott hafi leitt af því en síðan eru önnur atriði sem fylgja með í pakkanum sem mér líkar síður við. Hægt væri að nota einn mælikvarða til að svara þeirri spurningu sem er þessi: Hefðum við sett þessar reglur ef okkur hefði ekki verið falið að gera það sem þátttakendur í innri markaðnum? Þannig er auðvitað með margar reglur sem leiða af EES-samstarfinu að þær eru til framfara á Íslandi. Það myndi ég segja sérstaklega um allt sem lýtur að því að menn beiti sér fyrir betri orkunýtingu, aukinni neytendavernd og auknu gagnsæi um orkumál. Þar held ég að við verðum að gangast við því að það hefði mátt vera mun meira gagnsæi. Neytendur hafa sjaldnast verið spurðir á Íslandi þegar raforkuverð hefur hækkað í gegnum tíðina. Ætlum við eigum ekki fjölmörg dæmi um það að lélegir samningar við stóriðju hafi á endanum bitnað á hinum almenna neytanda á Íslandi vegna þess að menn geta ekki endalaust tekið á sig tapið af dapurlegum samningum, t.d. þegar verð á málmum fellur á heimsmarkaði og menn þurfa að bera tapið? Ætli við þurfum ekki að horfast í augu við það? Hefði ekki mátt vera meira gagnsæi um þetta? Hefði ekki hinn almenni notandi, heimili, fyrirtæki, smá og meðalstór, mátt vita meira um hverjar eru orsakirnar fyrir því að raforkuverð er að hækka? Ég er þeirrar skoðunar að okkur hafi mistekist að skapa alvörusamkeppni eins og til stóð og var boðað með fyrri orkupökkunum. En öll þau atriði eru hluti af ákvörðunum sem voru teknar fyrir löngu (Forseti hringir.) og eru ekki hluti af þessu máli núna. Þess vegna segi: Höldum áfram að ræða þetta. Spyrjum okkur hvernig við getum betur staðið að neytendamálum, orkunýtingarmálum og auknu gagnsæi um þau atriði á Íslandi, en þau eru sannarlega ekki hluti af þessu máli.