149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:45]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Frú forseti. Þá eru allir formenn stjórnarflokkanna búnir að halda fyrstu ræðu sína í þessari umræðu og auðvitað löngu tímabært. En enn hefur ekki verið útskýrt fyrir okkur hvers vegna við eigum að innleiða þennan orkupakka, hvaða hagur sé í því fyrir okkur Íslendinga. Ekki hefur enn tekist að útskýra hvers vegna menn treysta sér ekki til að nýta ákvæði samningsins til að vísa málinu aftur til sameiginlegu nefndarinnar en kjósa frekar að fara í baráttu við eigin flokksmenn og ganga gegn eigin stefnu.

Að vísu kom hæstv. fjármálaráðherra aðeins inn á þetta áðan í ræðu sem var að mínu mati mun hófsamari en það sem við höfum fengið að heyra frá stjórnarliðum í dag, svo að ekki sé minnst á stjórnarsamstöðuna. Margt áhugavert kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra. Hann staðfesti til að mynda að þessi réttur væri óumdeildur og í raun forsenda EES-samningsins og taldi ekki að við myndum setja samninginn í uppnám með því að beita 102. gr. og er sem betur fer ekki sammála hæstv. utanríkisráðherra um það.

Hins vegar þótti mér röksemdafærslan fyrir því að nýta ekki þessa grein nú heldur langsótt. En það ber þó að lofa það að a.m.k. hafi komið fram þarna tilraun til að útskýra þessa tregðu stjórnvalda til að nýta samninginn. Ég er þeirrar skoðunar að það sé einmitt mjög mikilvægt að beita þessari grein til þess að virkja hana, til að halda henni lifandi, því það verði bara jafnt og þétt erfiðara og menn jafnt og þétt smeykari við að nota hana eftir því sem tíminn líður. Ég tala nú ekki um ef þeir nýta hana ekki í svona máli.

Því miður hafa allt of margir í þessari umræðu brugðist við gagnrýni og áhyggjum af þessari innleiðingu með því hjóla beint í manninn: þingmenn, lögfræðinga, jafnvel dómara og aðra sem hafa varað við. Ríkisstjórnin vitnar í eigin sérfræðinga, lét skrifa fyrir sig álit sem hún lagði af stað með. Við höfum tekist á við mörg umdeild og stór mál í íslenskum stjórnmálum síðasta áratuginn og ég er minnugur þess að ávallt var hægt að fá menn í að útskýra fyrir stjórnvöldum hvers vegna við þyrftum að gera það sem við vildum ekki gera. Það var líka alltaf hægt að fá menn til að útskýra það hvers vegna við gætum ekki gert það sem við vildum gera.

Það kemur sá tímapunktur að menn verða að sýna pólitíska dómgreind og taka forystu, taka ákvörðun út frá því sem er pólitískt rétt og verja með því hagsmuni landsins því að það verða alltaf nógu margir til að vara við því að það sé hættulegt. En þegar menn þurfa að taka slíka ákvörðun er mjög gagnlegt, þegar raunveruleikinn birtist og sýnir manni svart á hvítu hvað snýr upp og hvað snýr niður, að menn geti hætt að velta fyrir sér misvísandi viðvörunum þeirra sem, eins og ég nefndi áðan, vilja segja stjórnvöldum að þau megi ekki gera það sem þau vilja gera eða verði að gera það sem vilja ekki gera. Og nú hefur Evrópusambandið sjálft svarað þessari spurningu, svarað álitaefnunum, fyrir okkur Íslendinga með fréttatilkynningu þar sem rakið er hvers vegna Evrópusambandið sé farið í málaferli við Belgíu vegna þriðja orkupakkans.

Og hvað kemur fram þar? Jú, Evrópusambandið er að stefna Belgíu vegna þess að þar í landi höfðu stjórnvöld þá undarlegu hugmynd að þau gætu enn eitthvað haft um það að segja hvaða ákvarðanir væru teknar varðandi raforku- og gasverkefni, þ.e. að orkustofnunin, landsreglarinn þar í landi, gæti bara komið með tillögur. En svo þyrftu stjórnvöld, þingið, að staðfesta. Þetta var ekki ásættanlegt að mati Evrópusambandsins, enda kemur skýrt fram í lýsingu sambandsins á þriðja orkupakkanum að hann sé til þess ætlaður að færa þetta vald frá lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum til stofnunar, miðstýrðra stofnana.

Hitt sem var óásættanlegt hjá Belgunum var að stjórnvöld vildu líka hafa síðasta orðið um tengingu við raforku- og gaskerfi milli landa. Það vald átti líka alfarið að liggja hjá stofnuninni. Evrópusambandið sjálft er þannig búið að svara stærstu álitamálunum sem við höfum staðið frammi fyrir í þessari umræðu og við getum ekki með nokkru móti leyft okkur að samþykkja innleiðingu þessa orkupakka þegar þetta liggur fyrir.