149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri þessari spurningu velt upp reglulega: Til hvers erum við að þessu? Menn telja sig ekki hafa fengið svar við henni. Ég hélt að eftir alla þessa umræðu lægi það alveg ljóst fyrir hvers vegna málið er komið fram í þinginu. Í fyrsta lagi er verið að uppfæra á innri markaðinum sameiginlega löggjöf um orkumál sem við höfum fyrir löngu skuldbundið okkur til þess að taka þátt í. Þannig að það er samningsskuldbinding sem liggur hér til grundvallar. Í öðru lagi er verið að leggja málið svona fyrir þingið vegna þess að þannig var það útbúið og undirbúið í tíð hv. þingmanns sem forsætisráðherra. Á meðan Gunnar Bragi Sveinsson sat sem utanríkisráðherra var verið að ganga frá málinu í þessum búningi.

Það væri hægt að svara spurningunni svona: Ja, við erum að leggja málið fyrir þingið og ákveða að afgreiða það vegna þess að þið hafið sjálfir tekið þátt í að ganga frá því með þessum hætti. Og í framhaldi af því var því lofað í sameiginlegu nefndinni að leggja málið fyrir Alþingi. Þetta er saga málsins og þeir sem bera ítrekað upp spurninguna hafa sjálfir átt aðkomu að málinu á fyrri stigum. Að því leyti til finnst mér það ódýr fullyrðing að þessu hafi ekki verið svarað. Það liggur í augum uppi að það hvílir á samningsskuldbindingunni og málið er komið inn í þingið í þessum búningi vegna þess að við höfum verið að vinna að því í mörg ár.

Varðandi belgíska dæmið er rétt að benda á frumvarp sem verður rætt á morgun þar sem allt það sem hv. þingmaður var að nefna kemur fram. Í 3. gr. frumvarps um breytingu á raforkulögum og Orkustofnun segir, með leyfi forseta:

„Stofnunin er sjálfstæð í ákvörðunum sínum þegar hún sinnir þessu eftirliti og getur ráðherra ekki gefið fyrirmæli um framkvæmd þess.“

Við vissum alltaf að þetta myndi koma í frumvarpinu. Þetta er hluti af þriðja orkupakkanum. Við myndum lenda í sama samningsbrotamálinu eftir að við höfum aflétt stjórnskipulega fyrirvaranum ef við kæmum ekki með svona frumvarp. Svona frumvarp var greinilega ekki lagt fram í Belgíu. Þess vegna lenda þeir upp á kant við eftirlitsaðilana, af því að þeir höfðu lofað því að leggja málið fram. (Forseti hringir.)

Afritið af því máli sem við erum með á dagskránni á morgun hefði þurft að koma fram í Belgíu. Svo getum við rætt um hvort það sé eðlilegt eða ekki.