149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var stórmerkilegt. Ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli í seinni hluta ræðu sinnar einfaldlega hafa tekið undir og staðfest það sem ég sagði um áhrifin af innleiðingu þriðja orkupakkans og um leið bent á að íslensk stjórnvöld stæðu sig betur gagnvart Evrópusambandinu varðandi innleiðinguna en þau belgísku. Þetta fannst mér merkilegt.

Hvað varðar fyrri hluta andsvars hæstv. ráðherra fór ég að velta fyrir mér hvort ég hefði verið of fljótur á mér að segja hann hófsamari en aðra ræðumenn hér. En þetta var nú allt í lagi. Hann gekk ekki langt en seildist þó inn á sérsvið hæstv. utanríkisráðherra, að reyna að varpa þessum pakka yfir á alla aðra. Ég heyrði ekki betur en hann væri nokkurn veginn að reyna að útskýra fyrir okkur að hann, hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin, væri að innleiða þetta nú vegna þess að ég hefði ekki sem forsætisráðherra farið út fyrir valdsvið mitt og tekið þetta mál frá þinginu. Það var vissulega til meðferðar í þinginu en kom ekki inn í sameiginlegu EES-nefndina fyrr en 2017.

Og hverjir sendu það þangað? Formaður utanríkismálanefndar, Sjálfstæðismaður, og hæstv. þáverandi utanríkisráðherra og núverandi hæstv. menntamálaráðherra. Svoleiðis að ef menn hafa ekki sterkari rök fyrir innleiðingu en þetta, að ég hafi ekki hrifsað málið til mín frá þinginu og þess vegna verði þessi ríkisstjórn að innleiða það, þá þykir mér þetta allt saman byggjast á mjög á veikum grunni.

Ég hefði haldið að ríkisstjórn sem leggur svona mikið á sig við að innleiða svona umdeilt mál hlyti að hafa eitthvað uppbyggilegra um það að segja hvers vegna hún vill ganga svona langt en þessi orðræða gefur til kynna.