149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurt er: Til hvers erum við að þessu? Í þeirri spurningu finnst mér birtast annaðhvort vanþekking eða vísvitandi vilji til að rugla umræðuna um hvað það þýðir að vera inni á Evrópska efnahagssvæðinu og hvaða samningsskuldbindingar við höfum undirgengist þar. Fyrir þá sem ekki þekkja málið gengur það út á að samræma reglurnar eins mikið og hægt er. Það hefur legið fyrir frá upphafi. Mál eru tekin til skoðunar og þessarar grundvallarspurningar er spurt þegar Evrópuþingið og framkvæmdastjórnin hafa sent eitthvað frá sér: Varðar málið innri markaðinn? Og hvernig ætlum við þá að innleiða það í EFTA-samstarfið?

Þetta er grunnsvarið þegar spurt er: Af hverju erum við að þessu? Við erum að þessu vegna þess að við erum þátttakendur í EES-samstarfinu, það er grunnsvarið. Af hverju kemur málið svona til þingsins? Vegna þess að það hefur verið í mörg ár í undirbúningi í samtali við þingið — og já, þáverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, í ríkisstjórn hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem þá var forsætisráðherra, sendi hér, að því er mér sýnist, 14 blaðsíður af rökstuðningi fyrir því að klára málið. Þær eru hérna allar, 14 blaðsíður af rökstuðningi fyrir því að málið klagaði ekki upp á stjórnarskrána og það væri búið að gæta hagsmuna Íslendinga.

Ef mönnum sárnar að þetta sé rifjað upp eru menn bara að forðast efnislega umræðu um þetta mál. Það er auðvitað rétt, sem hv. þingmaður segir, að eftir að þessi samskipti höfðu átt sér stað kemur annar ráðherra og hann sendir það inn í sameiginlegu nefndina. En það breytir því ekki að það eru 14 blaðsíður úr utanríkisráðherratíð Gunnars Braga Sveinssonar fyrir því að klára málið eins og það er hér.

Ég segi því þegar menn spyrja: Af hverju er málið hér í dag til umræðu í þessum efnislega búningi? Ja, spyrjið bara hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson. Hann kunni öll rökin hér fyrir nokkrum árum.