149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:59]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar í þessari ræðu minni að koma lítillega inn á pólitískan þátt málsins sem snýr að því við hverju landsmenn allir og við hér í pontu á Alþingi máttum búast hvað þriðja orkupakkann varðar. Það hefur verið töluvert talað um það í dag, sérstaklega framan af umræðunni, að við í Miðflokknum höfum verið á einhverjum gráum svæðum hvað rökstuðning og málflutning okkar varðar, ýft upp umræðuna í samfélaginu og reynt að keyra hana áfram á umdeilanlegum hvötum. Ég vísa því auðvitað öllu til föðurhúsanna.

Staðreyndin er sú að efasemdirnar um þetta mál og innleiðinguna eru gríðarlega miklar úti í samfélaginu, eins og sést á öllum könnunum sem gerðar hafa verið og umræðunni sem hefur verið mjög heit síðan málið kom fram, sérstaklega yfir sumarmánuðina. Andstaðan er hvergi meiri, að því er virðist, en hjá baklandi ríkisstjórnarflokkanna og sennilega einörðust hjá baklandi Sjálfstæðisflokksins.

Nú sé ég að hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, brosir til mín. Hún hefur að sjálfsögðu fundið fyrir því á fundum um land allt. (ÁslS: Líka miklum stuðningi.) Já, miklum stuðningi við ýmislegt annað en ég held að hann sé ekki mikill við þriðja orkupakkann í baklandi Sjálfstæðisflokksins.

En ég ætla að koma aftur að þeim punkti við hverju var að búast. Datt einhverjum af þeim sem kusu Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum í hug að það yrði eitt af kjarnamálum þessa kjörtímabils að berja þriðja orkupakka í gegn með öllum ráðum? Ég leyfi mér að fullyrða að það var ekki einn einasti kjósandi Sjálfstæðisflokksins í síðustu kosningum sem hafði það í huga. Ég get vel ímyndað mér að margir kjósendur Viðreisnar hafi vonað að þetta yrði stóra málið sem þeir myndu beita sér fyrir og hafa þeir ekki brugðist í því efninu. (Gripið fram í: Það er rétt.) En það var ekki einn einasti stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins sem reiknaði með því að atkvæði hans yrði varið í að berja þetta mál í gegn. Ég er nokkuð viss um að það var ekki heldur einn einasti stuðningsmaður Framsóknarflokksins sem reiknaði með því að atkvæði hans yrði varið til þess að styðja við það að keyra þriðja orkupakkanum í gegn með öllum mögulegum ráðum. Það sjáum við best á tiltölulega nýtilkomnum ályktunum helstu stofnana Framsóknarflokksins. Og alveg öruggt er að ekki nokkrum stuðningsmanni Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs datt það í hug, af því að ég sé í salnum hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur, varaformann utanríkismálanefndar. Það hvarflar ekki að nokkrum manni að einn einasti kjósandi Vinstri grænna hafi haft þá von í brjósti að stuðningur hans myndi leiða til þess að þriðji orkupakkinn yrði barinn í gegn með öllum tiltækum ráðum og þeim helsta rökstuðningi að fyrri ráðherrar, fyrri ríkisstjórnir hefðu gert hitt og þetta og ýmislegt, annaðhvort of eða van í málinu.

En á sama tíma hélt hæstv. fjármálaráðherra ráðherra ræðu rétt áðan þar sem hann tilgreindi hvað þyrfti að hans mati til þess að virkja 102. gr. Það voru tvö atriði sem hann nefndi sem aðalákvarðanatökuvaldana í þeim efnum og annað af því var að það hefði verið kosið og það væri bara breyttur þingvilji, fullkomlega eðlilegt. Hafandi sagt þetta verður hæstv. fjármálaráðherra og allur hans hópur bara að gangast við króganum. Hér er nýbúið að segja í pontu af formanni Sjálfstæðisflokksins að það að virkja 102. gr. EES-samningsins væri algjörlega sjálfsagt mál ef breyttur þingvilji kæmi fram. Núverandi stjórnarflokkar verða því að segja, líka við baklandið sitt: Við viljum þetta, við ætlum að ná þessu í gegn. Þetta er okkar mál af því að formaður Sjálfstæðisflokksins er nýbúinn að segja í pontu að ef breyttur þingvilji kæmi fram í kosningum væri sjálfsagt að beita 102. gr.

Stjórnarflokkarnir þrír, sem ég held í allri einlægni að líði býsna illa með þetta mál, verða bara að gangast við barninu. Þetta er þeirra mál. Það verður ekki sett á einhverja aðra þó að málið hafi byrjað í vinnslu fyrir sirka tíu árum síðan. Menn verða að gangast við króganum í þeim efnum.